Með brunasár, skrámur í andliti og skerta heyrn

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barn var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar laust fyrir klukkan tvö í nótt eftir að það brenndi sig á flugeldum. Barnið var með brunasár á hendi, skrámur í andliti og skerta heyrn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu eftir verkefni næturinnar.

Flugeldur sprakk í höndum tveggja manna í Kópavogi upp úr klukkan hálfþrjú í nótt og slösuðust þeir á höndum og andliti. Þeir voru fluttir með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.

Þá var lögreglu tilkynnt um hóp krakka sem væru að kasta flugeldum hvert í annað í Fossvoginum skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt. Krakkarnir voru farnir þegar lögregla kom á vettvang.

Þá sinntu slökkvilið og lögregla fjölda útkalla vegna gróðurelda og annarra minni eldsvoða í nótt. Varðstjóri slökkviliðsins sagðist í samtali við mbl.is fyrr í morgun ekki muna eftir öðru eins álagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina