Sinntu yfir 300 verkefnum á tólf tíma vakt

Frá sinubruna í Úlfarsárdal.
Frá sinubruna í Úlfarsárdal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti yfir þrjú hundruð verkefnum í gær, þar af var um að ræða 80 sjúkraflutninga. Meðal verkefna slökkviliðsins voru gróðureldar, eldar í rusli og minni háttar útköll.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir gærkvöldið og nóttina hafa verið mikla áraun fyrir viðbragðshlið slökkviliðsins og þakklátt sé að það hafi staðist hana.

„Við erum voðalega þakklátir að þetta gekk eftir og hversu öflugar viðbragðshreyfingar við höfum. Það var meiri mönnun hjá okkur, við hringdum út mannskap hjá okkur. Síðan fengum við gífurlega góða og mikla aðstoð frá björgunarsveitunum, það voru yfir fimmtíu manns frá þeim,“ sagði Jón Viðar.

Jón Viðar Matthíasson.
Jón Viðar Matthíasson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er auð jörð og búið að vera dálítið þurrt lengi, það er svona meginástæðan fyrir því að það blossi upp gróðureldar út um allt en svo náttúrlega voru þetta ekki bara gróðureldar, það voru brunar í byggingum og það voru íkveikjur í gámum.“

Ljósmynd í hátíðareinkennisfötum náðist ekki þetta árið

Hann segir það vera gott dæmi um hversu annasöm vaktin var hjá slökkvliðinu að sú venja að starfsmenn mæti í hátíðareinkennisfötum og taki ljósmynd saman hafi ekki náðst þetta árið, þar sem hvítu skyrturnar héldust ekki lengi hvítar.

„Við höfum haft þá venju á aðfangadag og gamlársdag að fólk mæti hérna í hátíðareinkennisfötum og borði kannski saman og tekin mynd eins og hægt er.

Menn vöknuðu upp við það núna um fjögurleytið í nótt að það var ekki orðið myndafært af því að hvítu skyrturnar voru ekki lengur hvítar, menn fóru bara beint í útköll.

Þetta var mjög óvenjuleg staða, alveg einstakt sem betur fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert