Árið byrjar af krafti hjá björgunarsveitunum

Björgunarsveit Húsavík.
Björgunarsveit Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Árið byrjar heldur betur af krafti fyrir björgunarsveitarfólk víða um landið. Útköll til aðstoðar slökkviliði á gamlársdag og svo veðurofsi á fyrsta degi ársins. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir aldrei lát á verkefnum björgunarsveitanna.

Gærdagurinn byrjaði rólega eftir annasama nýársnótt en fyrsta útkall dagsins var að loka þjóðveginum á Suðurlandi að beiðni Vegagerðarinnar. Þegar líða tók á voru björgunarsveitir kallaðar út á Hellu, Akranesi og í Þorlákshöfn vegna veðursins.

Seinni part dagsins var tilkynnt um þrjá bíla sem sætu fastir á Öxnadalsheiði og björgunarsveitir á svæðinu því ræstar út. Þegar þær bar að kom á daginn að töluvert fleiri voru í vandræðum en talið var í fyrstu.

„Það var mikill skafrenningur á heiðinni og vindáttin þannig að þetta varð verst á austurhluta heiðarinnar. Björgunarsveitarmenn enduðu á því að koma um tuttugu manns til Akureyrar í skjól sem sátu fastir á heiðinni og lauk því verki milli níu og tíu um kvöldið,“ segir Davíð.

Vandræði víða 

Einnig lentu bílstjórar í vandræðum víða á Norðausturlandi á fjallvegum en þar var um að ræða staka bíla en ekki „holskeflu bíla sem sátu fastir“ að sögn Davíðs. Voru slík útköll víða, eða allt frá Siglufirði og austur að Egilsstöðum.

Síðustu útköll gærdagsins voru afgreidd, eins og áður segir, milli níu og tíu í gærkvöldi og það var svo ekki fyrr en í morgun sem björgunarsveitir voru ræstar út að nýju. Þá þurftu heilbrigðisstarfsmenn austur á Héraði sumir hverjir aðstoð við að komast til vinnu. Þá var björgunarsveitarfólk einnig ræst út í morgun í Eyjum en hluti þaks á húsi fauk af stað.

Þrátt fyrir nokkuð annasaman dag segir Davíð að staðan hefði getað verið bæði verri og betri.

„Það er alveg ljóst að fólk var að hlusta á viðvaranir og leiðbeiningar frá Veðurstofunni og svo var náttúrlega 1. janúar og laugardagur og fólk því almennt kannski í rólegum gír.“

Slökkva fjáröflunarelda

Spurður hve margir björgunarsveitarmenn hafi verið ræstir út til aðstoðar slökkvistarfi á nýársnótt segir hann það hafa verið í kringum 100 manns. Þrátt fyrir að fordæmi séu fyrir því að björgunarsveitir aðstoði við slökkvistarf, og nefnir Davíð gróðureldana í Heiðmörk í fyrra og í Borgarnesi árið 2020, þá hafi aldrei áður, eftir hans bestu vitund, björgunarsveitarfólk verið kallað út á gamlárskvöld.

„Það vantaði bara fleiri hendur við að til dæmis ferja búnað og mannskap. Sem og aðstoða slökkviliðið við að halda þessu í skefjum. Ég man ekki eftir því að árið hafi byrjað svo snemma hjá björgunarsveitunum áður.“

Segir hann ljóst að árið byrji með hvelli. Eldar á nýársnótt, óveður á fyrsta degi ársins og svo yfirvofandi spádómar um nýtt eldgos á Suðurnesjum.

„En það virðist nú aldrei vera lát á verkefnum hjá björgunarsveitunum, það er alveg ljóst. Enda grínuðumst við aðeins með það í jólakveðjum þessar hátíðirnar og líktum starfinu hjá fólkinu okkar við óvissuferðir, enda veit maður aldrei hvað dagurinn býður upp á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert