Erlendir ferðamenn settir í forgang

Hundrað herbergi til viðbótar verða tekin til notkunar á Reykjavík …
Hundrað herbergi til viðbótar verða tekin til notkunar á Reykjavík Natura við Reykjavíkurflugvöll í dag. mbl.is/RAX

Erlendir ferðamenn, þungaðar konur og aðstandendur langveikra eru meðal þeirra sem hafðir eru í forgangi á biðlistum farsóttarhúsa um þessar mundir en um hundrað einstaklingar bíða nú eftir herbergi þar. Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður telur líklegt að eftirspurnin eigi eftir að aukast til muna á næstu dögum þegar fleiri sækja sýnatökur í kjölfar hátíðanna.

Hundrað ný herbergi voru tekin til notkunar í gær á Icelandair Hótel Natura sem staðsett er við Reykjavíkurflugvöll. Þá verða önnur hundrað herbergi á hótelinu tekin til notkunar í dag og þar með verða öll herbergin nýtt undir starfsemi farsóttarhúsa.

Gylfi Þór vonar að nýja viðbótin muni gera það að verkum að allir þeir sem eru nú á biðlista fái herbergi í dag. Ræðst það að mestu leyti af því hversu vel gengur að hringja í fólk.

Opna tvö hótel í vikunni

Í vikunni er stefnt að því að opna tvö önnur hótel til að anna þeirri eftirspurn sem von er á. Stendur nú yfir vinna að manna þau hótel enda er mannskapurinn sem farsóttarheimilin búa yfir nú þegar fullnýttur.

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa hjá Rauða krossinum.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa hjá Rauða krossinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort að einangrun og sóttkví hafi plagað starfshóp farsóttahúsanna, eins og þekkst hefur víða annars staðar í samfélaginu, segir Gylfi starfsmenn hafa verið frekar heppna hvað það varðar.

„Það kom upp eitt smit sem að var einangrað strax og þeir starfsmenn sem höfðu verið á vakt með viðkomandi þeir voru bara í vinnusóttkví en þeir sluppu við smit. Hjá okkur er grímuskylda allan vinnutímann og tveggja metra fjarlægð milli starfsmanna. Við köllum á milli frekar en að setjast niður og tala saman. Það situr í raun og veru enginn saman nema með tveggja metra millibili.“

Gengið vel þrátt fyrir álag

Að sögn Gylfa bættust 60 nýir gestir á farsóttarhúsin í gær, 40 daginn þar áður og um 50 á gamlársdag. Hann segir þó ganga ágætlega þrátt fyrir mikið álag.

„Þessi biðlisti hann lengist með hverjum deginum.“

Búist þið við að álagið muni dvína eftir áramótin?

„Nei það mun bara aukast. Það voru náttúrulega færri sem fóru í sýnatöku yfir jól og áramót, bæði var opnunartíminn skemmri hjá heilsugæslunni og eins líka margir sem ákváðu að bíða með það þar til að hátíðarhöldunum væri lokið. Þannig ég býst nú við að margir fari í sýnatökur bæði í dag og á morgun. Þá býst ég nú við að fá hressilegar tölur.“

Fólk sprittar eftir sig sem hefur tök á að vera heima

Ekki allir þeir sem óska eftir herbergi á farsóttarhúsi hafa fengið inngöngu, en að sögn Gylfa fær sá hópur ráðleggingar um hvernig hægt sé að ráðstafa hlutum heima fyrir svo hægt sé að láta einangrunina ganga upp þar.

„Sumir óska eftir að fá að vera hérna hjá okkur en geta með hagræðingu verið heima hjá sér með því að sótthreinsa eftir sig klósett, vaska og aðra snertifleti. Sumir verða bara að gera það en við náttúrulega tökum alla þá sem nauðsynlega þurfa að vera hjá okkur. En það er smá bið.“

Hvernig er forgangsröðuninni háttað?

„Þetta er fólk sem hefur engan stað til þess að vera á. Eins og til dæmis erlendir ferðamenn á leið úr landi þegar þeir greinast. Það eru engin hótel sem vilja eða hafa tök á að hýsa þeim þannig við erum að taka við þeim.

Svo er fullt af fólki sem getur til dæmis ekki verið heima hjá sér út af veikindum annarra heimilisaðila, t.d. ef það eru krabbameinssjúklingar á heimilinu. Við erum að taka að okkur þungaðar konur sem eru við það að fara að eiga og þurfa að vera nálægt fæðingardeildinni og eru greindar með Covid-19. Það er allskonar svona sem við þurfum að fara í gegnum og þurfum að meta í hvert sinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert