Um 25% Covid-sjúklinga á spítala með Ómíkron

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Ólíklegt er að mælt verði fyrir afléttingum í næsta minnisblaði sem heilbrigðisráðherra mun fá afhent í vikunni, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann segir enn ekki hægt að fullyrða að tíðni spítalainnlagna sé lægri hér á landi af völdum Ómíkron-afbrigðisins samanborið við nágrannaríki okkar í ljósi hás bólusetningarhlutfalls.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Landspítala liggja nú 25 inni með Covid-19-sjúkdóminn. Fjölgar sjúklingum því um þrjá frá því í gær.

Meirihluti þeirra sem hafa lagst inn á spítala vegna Covid-19 hafa greinst með Delta-afbrigði veirunnar, en að sögn Þórólfs hafa um 25 til 30% verið að greinast með Ómíkron-afbrigðið. Niðurstöður raðgreiningar fyrir þá sem lögðust inn í gær liggja þó ekki enn fyrir.

„Það er ekki eins og Ómíkron hafi ýtt alveg Delta í burtu. Við erum enn þá með mikið af Delta-afbrigðinu. Við þekkjum veikindin þar. Við erum í því millibilsástandi að sjá hver heildarútkoman af þessu tvennu hvað varðar spítalann verður en þær hafa verið svona hægt og bítandi upp á við þegar við skoðum aftur í tímann.“

Ekki ljóst hvort tíðni spítalainnlagna sé lægri hér á landi

Hingað til hafa heilbrigðisyfirvöld iðulega miðað við tölfræði frá Danmörku sem vísar til þess að tíðni spítalainnlagna vegna Ómíkron-afbrigðisins sé um 0,7% meðal þeirra sem smitast.

Spurður hvort hægt sé að draga þá ályktun að Ómíkron-afbrigðið valdi færri spítalainnlögnum hér á landi í ljósi þess að við höfum ekki enn farið að sjá þá holskeflu innlagna sem sérfræðingar hafa varað við, segir Þórólfur það enn ekki hafa komið í ljós.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það. Eftir því sem frá líður sjáum við betur hvernig staðan er.“

Ómíkron ekki bara kvef

Rannsóknir og almenn reynsla í samfélaginu hafa vísað til þess að Ómíkron-afbrigðið valdi ekki jafn alvarlegum veikindum samanborið við Delta-afbrigðið. Sóttvarnalæknir hefur þó ítrekað varað við því að horft sé á nýja afbrigðið sem kvefpest.

Hvers vegna er varhugavert að líta á Ómíkron-afbrigðið sem bara kvef?

„Það er tvennt. Það er í fyrsta lagi ekkert kvef sem veldur því að það smitast svona margir og innlagnar hlutfallið er 0,7%. Ég þekki ekkert kvef sem veldur því að við fáum sjö innlagnir á dag ef við erum með þúsund manns sem smitast.

Ef útbreiðslan væri miklu minni – ef það væru að greinast um hundrað manns á dag – þá gætum við talað um að þetta væri svo sem ekki neitt neitt og enginn áhætta í þessu fólgin. En þegar útbreiðslan er svona gríðarlega mikil getur fjöldinn verið töluvert mikill sem setur okkur stólinn fyrir dyrnar.“

Erfitt að spá langt fram í tímann

Gildandi reglugerð um sóttvarnaaðgerðir rennur út þann 8. janúar næstkomandi. Þórólfur vildi ekki gefa upp hvort að hertari aðgerðir væru á teikniborðinu en hann taldi þó ótímabært að tala um afléttingar.

Þú varst nokkuð bjartsýnn á upplýsingafundi almannavarna fyrir áramót.

„Ég var bara að horfa fram á við. Kannski að ná okkur út úr þessu hægt og bítandi en tímasetningin var ekki ljós. Hvað þetta tæki langan tíma og ef við erum að fá útbreitt smit án alvarlegra afleiðinga þá skapaði það mikið og gríðarlega gott ónæmi í samfélaginu án alvarlegra veikinda og það er það sem ég er að tala um. Ég er ekki að tala um núna að það sé tímabært að aflétta einhverjum takmörkunum. Það hef ég aldrei sagt.“

Hvaða sviðsmyndir eru uppi núna?

„Það er kannski erfitt að segja nákvæmlega. Menn vilja fá sýn langt fram í tímann en í hvert skipti sem menn hafa gert það hafa þeir fljótt þurft að éta það ofan í sig vegna þess að þessi faraldur er svo mörgum breytingum háður.“

 

mbl.is

Bloggað um fréttina