Útilokar ekki að Delta verði áfram næstu mánuði

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir stöðuna á Landspítala viðkvæma en fjöldi innlagna fer nú vaxandi. Hann segir ekki útilokað að Delta-afbrigðið, sem valdið hefur meirihluta spítalainnlagna á síðustu vikum, verði áfram viðloðandi samfélagið næstu mánuðina þó Ómíkron haldi áfram að sækja í sig veðrið. 

Fimm voru lagðir inn á spítala í gær vegna Covid-19 og þrír voru útskrifaðir. Þá greindist einn sjúklingur til viðbótar með kórónuveiruna sem lagður hafði verið inn af öðrum ástæðum. Eru því samtals 28 sjúklingar á Landspítala með Covid-19, þar af átta á gjörgæslu og sex í öndunarvél.

Enn sem áður vill sóttvarnalæknir ekki gefa upp hvort tilefni sé að herða enn frekar á sóttvarnaaðgerðum.

„Við erum að hefta útbreiðsluna. Ef við værum ekki með þessar aðgerðir í gangi, bæði smitrakningu og einangrun – og þessar takmarkanir sem eru í gangi – þá værum við komin með miklu miklu meiri útbreiðslu. Þannig ég held að menn þurfi að horfa á það og ekki halda að það sem verið er að gera skili engum árangri. En ef við förum að slaka á myndum við örugglega sjá miklu meiri útbreiðslu og við myndum fá miklu fleiri inn á spítala. Þannig virkar þetta saman.“

Minnisblað í undirbúningi

Þórólfur er nú með minnisblað í undirbúningi sem hann skilar til heilbrigðisráðherra á næstu dögum og kveðst hann vera með „alls konar hugmyndir“ sem hann vill þó ekki gefa upp enn sem komið er.

Spurður hvort landsmenn megi búast við svipuðum aðgerðum út næstu mánuði segir hann sömuleiðis ótímabært að svara því.

„Ég held að það sé ekki tímabært að tala um hvernig verður þetta næstu mánuðina. Ég held að við þurfum að horfa okkur aðeins nær, hvernig þetta verður núna næstu daga og vikurnar. Þó að margir vilji sjá lengra fram í tímann megum við ekki missa sjónar á því sem við erum að gera núna.“

Stjórnvöld þurfi ekki að fara eftir öllum ráðleggingum

Í gær greindust 1.289 smit innanlands, þar af voru 804 utan sóttkvíar. Stendur 14 daga nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa nú í 2.817,3.

Ný ríkisstjórn hefur á síðustu vikum ekki farið eftir ráðleggingum sóttvarnalæknis í einu og öllu. Mun skólahald til að mynda hefjast fyrir 10. janúar sem Þórólfur hefur mælt gegn.

Er það þín tilfinning að nálgunin núna sé að láta veiruna gossa?

„Stjórnvöld hafa verið með þá áherslu – eins og við höfum gert líka – að beita eins lítið íþyngjandi aðgerðum gegn börnum eins og mögulegt er. Það er það sem stjórnvöld eru að gera með því að reyna að halda skólastarfi gangandi og ég hef líka sagt það að auðvitað eru það stjórnvöld sem taka tillit til alls konar sjónarmiða. Þess vegna þurfa stjórnvöld ekki endilega að fara eftir öllu sem ég legg til.“

Alvarleg tilfelli vegna Ómíkron um 30-50% færri

Eins og áður hefur komið fram hafa flest þau smit sem greinst hafa síðustu daga verið vegna Ómíkron-afbrigðisins.

Spurður hvort hann líti á þá þróun sem jákvæða, í ljósi þess að vægari einkenni virðast fylgja því afbrigði og færri spítalainnlagnir, segir Þórólfur það ekki endilega svo vera. 

„Það virðast vera núna 30 til 50 prósent færri alvarleg tilfelli af Ómíkron heldur en af völdum Delta. En ef útbreiðsla er hröð og mikil þá getur fjöldinn orðið mikill sem veikist alvarlega þó lægra hlutfall sé að valda okkur verulegum vandræðum. Þannig við erum að horfa upp á einhvern tíma sem að það tæki fyrir Ómíkron að smita sem flesta þannig að við fáum ónæmi í samfélaginu.“

Sé þá ekki útilokað að Delta-afbrigðið hverfi ekki þó svo að Ómíkron-afbrigðið haldi áfram að breiðast út á þessum hraða.

mbl.is

Bloggað um fréttina