Hreindýr spókuðu sig um á Djúpavogi

Heldur óvenjulegir ferðamenn voru á ferli á Djúpavogi á mánudaginn var en hreindýrahjörð sást þar á vappi um bæinn.

Grétar Örn Guðmundsson hafði verið hjá tengdafjölskyldu sinni á Djúpavogi þegar hann sá hreindýrin. Hann segir það hafa verið afar sérstaka upplifun enda sé hann sjálfur úr höfuðborginni og því ekki vanur að sjá hreindýr svo nálægt byggð. Tengdafjölskyldan hafi þó lítið kippt sér upp við hreindýrin, að hans eigin sögn.

Grétar Örn Guðmundsson.
Grétar Örn Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Fannst þetta „geðveikt“

„Það er eiginlega það fyndnasta við þetta. Djúpavogsbúarnir eru svo vanir því að sjá hreindýr þarna en þar sem ég er úr bænum fannst mér þetta alveg geðveikt, enda elska ég líka hreindýr,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Hann segir hús tengdafjölskyldunnar vera staðsett ofarlega í bænum og að það sé mjög aðgengilegt hreindýrunum enda séu klettar það eina sem girði garð hússins af.

„Þau komu þaðan niður og gengu í gegnum bæinn. Þau stoppuðu hjá hótelinu, fóru þaðan niður í fjöru og fóru svo á endanum bara eitthvað í burtu“.

Voru þetta kannski túrista hreindýr?

„Já, þetta leit allavega þannig út. Þau hafa allavega fengið þokkalegan frið til að skoða sig um enda brjálað veður og ekkert fólk á ferðinni úti.“

mbl.is