Óþarfi að æsa sig yfir hverju nýju afbrigði

Þórólfur segir það bara til að æra óstöðugan að velta …
Þórólfur segir það bara til að æra óstöðugan að velta vöngum yfir hverju afbrigði sem greinist. Ljósmynd/Lögreglan

Reglulega hafa komið fram ný afbrigði kórónuveirunnar. Ómíkron-afbrigðið er það nýjasta sem hefur náð einhverri útbreiðslu, en líkt og flestir vita hefur það farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina síðustu vikur.

Það er nú orðið ráðandi á Íslandi en um 90 prósent allra smita sem greinast hér á landi eru af völdum afbrigðisins. Delta-afbrigðið ber ábyrgð á 10 prósent smita, en það er enn ráðandi hjá börnum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir alveg óþarfi að æsa sig yfir hverju nýju afbrigði sem greinist. Betra sé að bíða og sjá hvað úr verður.

„Það er alltaf verið að benda á einhver ný og ný afbrigði en maður er ekkert endilega að binda sig við það. Ég held að það verði bara að koma betur í ljós hvernig útbreiðslan á þeim verður og hvað verður úr því. Það er ekki hægt að æsa sig yfir hverju nýju afbrigði sem menn greina og eru að velta vöngum yfir. Það væri til að æra óstöðugan. En auðvitað verðum við að fylgjast með því ef það verður einhver útbreiðsla á einhverjum afbrigðum sem hegða sér einhvern veginn öðruvísi. Það er bara partur af þessu.“

Þórólfur segir ekkert sem hafi verið bent á nýlega sé þannig að það skipti miklu máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina