Þórður Már Jóhannesson lætur af störfum

Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festi hf.
Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festi hf. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festar hf., óskaði eftir því að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður á stjórnarfundi í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem birt var á vef Keldunnar rétt í þessu.

Í tilkynningunni segir að stjórn félagsins hafi fallist á erindið. Í kjölfarið hafi stjórnin skipt með sér verkum upp á nýtt. Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður.

Inntur viðbragða segist Eggert Þór Kristjánsson forstjóri Festi ekki geta tjáð sig um stjórnarformannsskiptin.

Því þetta er eitthvað sem ég hef ekki nein áhrif á. Stjórn er kosin af hluthöfum þannig það eru þeir sem ákveða þetta, ekki ég. Ég ræð öllu fyrir neðan það,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Rétt eins og Ari Edwald, framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings, og Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og aðaleigandi fyrirtækisins Veritas, er Þórður bendlaður við mál þar sem ung kona ásakar hóp karlmanna um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi í sumarbústaðarferð í desember 2020 og kemur tilkynningin frá Festi í kjölfar þeirra ásakana.

Stúlk­an sem um ræðir er hin 24 ára gamla Vítal­ía Lazareva, sem nafn­greindi bæði Ara, Hreggvið og Þórð á sam­fé­lags­miðlin­um In­sta­gram síðla árs 2021 þar sem hún tjáði sig um kyn­ferðisof­beldið sem hún kvaðst hafa verið beitt í umræddri sumarbústaðarferð.

Samkvæmt heimildum Elínar Margrétar Stefánsdóttur, stjórnarformanns Mjólkursamsölunnar, hefur Ari óskað eftir ótímabundnu leyfi frá störfum vegna ásakana í hans garð, en Ísey útflutningur er systurfyrirtæki MS.

Þá hefur Hreggviður Jóns­son ákveðið að stíga til hliðar í stjórn Ver­itas og stjórn­um tengdra fyr­ir­tækja vegna ásak­ana á hend­ur hon­um, að því er greint er frá í yfirlýsingu frá honum um málið sem lögmaður hans sendi á fjölmiðla í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina