Óheppin að vera Janssen-hópur

Íris segir að djúp þreyta sé komin í alla vegna …
Íris segir að djúp þreyta sé komin í alla vegna mikils álags. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barn á yngri deild í leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði, sem rekinn er af Hjallastefnunni, greindist með Covid-19 og þarf því stór hópur barna á leikskólanum að sæta sóttkví ásamt forráðamönnum sínum og mörgum starfsmönnum leikskólans.

„Ég er að vinna úr þessari nýju reglugerð og við erum svo óheppin að vera Janssen-hópur, þannig að við föllum ekki undir þá skilgreiningu í bili. Þetta verður einhver hópur sem er kominn í sóttkví núna,“ segir Íris Helga Gígju Baldursdótir, skólastýra í Hjalla, segir í samtali við mbl.is.

Í dag var greint frá breyttum reglum um sóttkví fyrir fólk sem er þríbólusett eða hefur verið bólusett tvisvar og smitast af kórónuveirunni. Því fellur sá hópur sem hlaut bólefni frá Janssen ekki undir breytingarnar, þar sem sá hópur hefur einungis fengið tvo skammta af bóluefni. 

Djúp þreyta og mikið álag

Hún segir að djúp þreyta sé komin í alla vegna mikils álags sem hefur verið á leikskólana í kjölfar smita en að á sama tíma sé starfsfólk þakklátt að geta boðið börnum rútínu og griðarstað.

„Þetta gengur allt vegna þess að við erum náttúrulega bara með alveg dásamlegan foreldrahóp og fallegt samfélag, þannig að við höfum bara unnið þetta rosalega vel saman.

Það er rosalega góður skilningur og þolinmæði, þetta er náttúrulega búið að vera gríðarlegt álag á alla en þetta er bara eitthvað sem að enginn er að gera sér að leik og við vitum að við getum öll lent í, þannig að við vinnum þetta bara öll fallega saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert