Pétur lék á bíræfna bókaþjófinn

Pétur Már Ólafsson útgefandi
Pétur Már Ólafsson útgefandi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Dularfulli bókaþjófurinn, sem handtekinn var í gær, hefur komið víða við í íslenska útgefendaheiminum. Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld, segir á facebook síðu sinni, frá samskiptum sínum við þjófinn, sem þá þóttist vera Hallgrímur Helgason.

Um mánaðarmót október og nóvember mánaðar fékk hann nokkur skeyti frá bókaþjófnum í nafni Hallgríms Helgasonar, úr netfanginu helgason.hallgrimur@hotmail.com.

Hann sagðist vera í Danmörku og óskaði eftir handritum af tilteknum bókum á forminu pdf, sem hann vildi veita umsögn.

„Ég vissi að hinn raunverulegi Hallgrímur hafði verið á ferðalagi í Þýskalandi og fannst þetta svolítið skrýtið,“ ekki síst í ljósi þess að Hallgrímur hafði á þeim tíma lýst því yfir á facebook síðu sinni að hann væri kominn heim til Íslands.

Í stað þess að hunsa skilaboðin eða láta rakleitt í ljós vitund sína, ákvað Pétur að ræða betur við þennan ágæta Hallgrím sem vildi ólmur lesa rétt óútgefnar íslenskar bækur, en aðeins á pdf formi.

Meintur Hallgrímur Helgason vildi bara pdf

Samskipti þeirra voru með eftirfarandi hætti:

Pétur svaraði Hallgrími: „Sælir, ég sé að þú ert kominn heim. Má ekki bjóða þér á Víðimelinn og skiptast á bókum?“

Þá afþakkaði hinn meinti Hallgrímur: „Hæ Pétur, nei, sorry, ég er enn í Danmörku...“

Því næst stakk Pétur upp á því að þeir heyrðust í síma og spurði hvaða tími myndi henta meintum Hallgrími best.

Sá svaraði þá: „Ég er oft laus á morgnana. Af því? Geturðu ekki sent mér pdf?“

Þann sama dag upplýsti hinn rétti Hallgrímur Helgason að hann væri kominn með Covid-19.

Þá sendi Páll skilaboð á hinn meinta Hallgrím og spurði út í líðan hans í ljósi Covid-19 veikindanna. Hallgrímur sá skildi hvorki upp né niður í þessum skilaboðum uns Pétur sendi honum skjáskot af facebook færslu raunverulega Hallgríms Helgasonar.

Tók hinn meinti Hallgrímur við sér og svaraði um hæl að hann hefði það ekki gott, væri nú staddur á hóteli í Reykjavík. Óskaði hann enn og aftur eftir að Pétur sendi sér bækurnar.

Sagðist Pétur þá ætla að senda bókina á sóttvarnarhótelið í Reykjavík.

„Ég get ekki tekið á móti neinum pakka... aðeins pdf.,“ var svarað.

Þá sagðist Páll hafa fengið símtal frá Hallgrími sem hefði þakkað fyrir bókagjöfina. Þar með lauk samskiptum þeirra.

Áður átt í samskiptum við bókaþjófinn sjálfan

Eftir að fréttir gærdagsins sviptu hulunni af hinum dularfulla bókaþjóf, kom í ljós að Filipo Benardino væri maðurinn að baki svindlinu, en sá starfar hjá þekktri bókaútgáfu í Bretlandi.

Páli þótti þetta áhugavert í ljósi þess að hann hefur í störfum sínum átt í samskiptum við Bernardino undir sínu rétta nafni.

Hafði sá einmitt ávarpað Pál, og samstarfsmenn hans, á bjagaðri íslensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert