Segir störf sín sýna að hún standi með þolendum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir störf sín sem ráðherra dómsmála og sem þingmaður þar á undan frekar endurspegla afstöðu sína til kynferðisbrotamála en læk sem hún setti við færslu Loga Bergmanns Eiðssonar, útvarpsþáttastjórnanda á K100, í gær. 

Þar sagðist hann saklaus af þeim ásökunum sem Vítalía Lazareva opinberaði í viðtalsþætti Eddu Falak, Eigin konur, á þriðjudag og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. 

„Störf mín, lagabreytingar og barátta í dómsmálaráðuneytinu og sem þingmaður þar á undan segja meira um afstöðu mína í þessum mikilvægu málum en nokkuð annað. Ég aftur á móti skil vel þá umræðu sem á sér stað, og ég þarf að vanda mig í þessu eins og öðru,“ segir Áslaug við mbl.is.

Hægt að sýna samkennd með öðrum hætti

Áslaug sætti harðri gagnrýni fyrir að hafa lækað yfirlýsingu Loga Bergmanns og segist hún hafa viljað með því sýna samkennd með Loga, sem hún tengist vinaböndum. 

Hún viðurkennir þó að sýna megi samkennd með öðrum hætti en með því að setja læk við yfirlýsingar af þeim toga sem Logi birti í gær.

„Á erfiðum tímum reyni ég að sýna þeim sem standa mér nærri samkennd, það má gera með öðrum hætti en ég gerði. En í því felst engin afstaða né vantrú á frásagnir þolenda,“ segir Áslaug. 

Áslaug var einnig gagnrýnd fyrir að hafa lækað færslu Loga í ljósi þess að hún gagnrýndi Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara fyrir að hafa lækað umdeilda færslu á síðasta ári.

Helgi lækaði færslu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, sem birti lögregluskýrslur opinberlega sem tengdust máli Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur gegn landsliðsmanni í knattspyrnu, sem hún sakaði um kynferðisbrot. 

Þegar hún var spurð út í þetta vildi Áslaug ekki tjá sig frekar um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert