Staðan væri margfalt verri án örvunarskammts

Tæplega 60 prósent fullbólusettra hafa einnig fengið örvunarskammt.
Tæplega 60 prósent fullbólusettra hafa einnig fengið örvunarskammt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það alveg ljóst að staðan hér á landi vegna faraldursins, þá sérstaklega á Landspítalanum, væri margfalt verri ekki væri fyrir útbreidda bólusetningu. Þá skipti örvunarskammturinn sköpum í þeim efnum.

„Hún væri mörgum sinnum verri, við værum í mjög slæmri stöðu ef við hefðum ekki þessa útbreiddu bólusetningu, þá sérstaklega örvunarskammtinn. Það er alveg á hreinu,“ segir Þórólfur. Þó fólk smitist vissulega þrátt fyrir örvunarskammtinn þá liggi það orðið ljóst fyrir að sá hópur veikist síður alvarlega og lendi síður á gjörgæslu. Þá séu þeir sem hafi fengið örvunarskammt fljótari að jafna sig af veikindunum.

„Það er ástæðan fyrir því að við erum að hvetja fólk til að mæta í bólusetningu. Byrja á því að fá venjulega bólusetningu. Þú getur ekki fengið örvun fyrr en þú ert búin að fá grunnbólusetningu.“

Enginn á gjörgæslu sem hefur fengið örvunarskammt

Rétt rúmlega 90 prósent landsmanna eldri en 12 ára eru nú fullbólusettir og tæplega 60 prósent af þeim hafa einnig fengið örvunarskammt.

„Við höfum meiri reynslu af Delta en erum að sjá alltaf hægt og bítandi með Ómíkron-afbrigðið að þó að fólk sem hefur fengið örvunarskammtinn sé að taka smit þá er miklu minna um alvarleg veikindi hjá fólki og það er það sem skiptir máli. Við sjáum það líka á spítalanum, það er alvarleg staða þar. Það bættust við sjö innlagnir í gær og tvær útskriftir. Þeir sem eru á gjörgæslu eru nánast allir óbólusettir, eru ekki einu sinni með bólusetningu. Þannig ég held að það sé ekki nokkur vafi á því og rannsóknir hafa sýnt að örvunarskammturinn skiptir miklu máli fyrir Ómíkron-afbrigðið þó það geri það kannski ekki alveg eins mikið og fyrir Delta-afbrigðið.“

Samkvæmt heimildum mbl.is voru í gær þrír fullbólusettir einstaklingar á gjörgæslu smitaðir af Covid-19, en enginn þeirra hafði fengið örvunarskammt. Einn þeirra var með staðfest smit af völdum Ómíkron-afbrigðisins en tegund afbrigðis lá ekki fyrir hjá hinum.

Í dag voru 37 sjúklingar á Landspítalanum smitaðir af Covid-19, en sjö lögðust inn í gær og tveir útskrifuðust. Átta eru á gjörgæslu, þar af sex í öndunarvél. Þórólfur segir þetta of margar innlagnir á dag og að spálíkan, sem geri ráð fyrir minnsta kosti 20 á gjörgæslu á næstu vikum, virðist vera að raungerast. 

Sundurleitur hópur sem er óbólusettur

Aðspurður hvort hann viti til þess að óbólusettir hafi verið að taka við sér og þiggja bólusetningu, segist Þórólfur fylgjast með því frá degi til dags. Ýmislegt geti líka truflað tölfræðina.

„Þetta er mjög sundurleitur hópur sem hefur ekki mætt. Þetta er bæði fólk sem getur ekki mætt og hefur kannski læknisfræðilegar ástæður fyrir því, og svo fólk sem vill ekki fara í bólusetningu. Fólk sem hefur gleymt því að fara í bólusetningu, kannski útlendingar sem koma hérna og við náum illa til og eru ekki með það á hreinu að þeir geti komist í bólusetningu, og svo er einhver hópur þarna inni sem er ekki hérna á landinu, sem er skráður í þjóðskrá og í öll gögn en er ekki á Íslandi. Þetta truflar þessa tölfræði og gerir hana erfiðari.“

mbl.is

Bloggað um fréttina