Vonsvikin vegna viðbragða Áslaugar

Atli Þór Fanndal er nýr framkvæmdastjóri samtakanna.
Atli Þór Fanndal er nýr framkvæmdastjóri samtakanna.

Alþjóðasamtökin Transparency International kalla eftir því að þolendur kynferðisofbeldis fái tryggða sams konar vernd og uppljóstrarar um spillingarbrot.

Tilkynning samtakanna í kjölfar frásagnar Vítalíu Lazareva í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í vikunni.

Í þættinum sagði Vítalía frá því hvernig valdamiklir menn í viðskiptalífinu hefðu brotið á henni kynferðislega í sumarbústaðarferð í desember 2020 og frá öðru máli þar sem brotið hefði verið á henni í golfferð.

Samtökin segjast vilja sjá breytingar á borð við vernd gegn atvinnumissi, orðsporðsvernd, vernd gegn hefndaraðgerðum og aðstoð við að rjúfa þögnina í málum sem þessum, sem og að kerfið sýni skilning á aðstöðumuni.

„Þótt kynferðis- og efnahagsbrot séu eðlisólík þá fá samt þolendur kynferðisofbeldis einum of oft svipaða meðferð og uppljóstrarar um spillingarbrot. Aðferðirnar eru þær sömu, persónulega áhættan svipuð, og andlega álagið sambærilegt,“ segir í tilkynningunni.

Ýtir undir vantraust á réttarkerfið

Einnig er snert á því að staða gerenda í kynferðisbrotamálum og aðrir þættir hafi áhrif á líðan brotaþola og getu þeirra til að leita réttar síns.

Í hlaðvarpsþættinum nefnir Vítalía að hún geti ekki treyst hverjum sem er, þar sem mennirnir sem brotið hafi á henni séu valdamiklir og með stórt tengslanet í íslensku atvinnulífi. Í tilkynningunni segir að slíkt umhverfi ýti undir vantraust á réttarkerfinu.

„Því er með öllu ólíðandi að brotaþolar og almenningur skuli horfa upp á stjórnmálafólk og einstaka fjölmiðlamenn hegða sér með þeim hætti sem segja má að falli undir meðvirkni með gerendum. „Þumall“, „like“ eða sambærileg viðbrögð áhrifafólks á samfélagsmiðlum við yfirlýsingum geranda rennir í raun stoðum undir sannleikann í orðum Vítalíu. Stór hluti vandans er einmitt þessi völd tengslanetsins, sem slær skjaldborg utan um vissa valdamikla gerendur og verndar þá.“

Lýsa yfir vonbrigðum yfir viðbrögðum Áslaugar

Vísað er til þess meðal annars að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lækaði við Facebook-færslu Loga Bergmanns í gær þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu gagnvart ásökunum Vítalíu.

Samtökin lýsa yfir vonbrigðum sínum yfir viðbrögðum Áslaugar, einstakra fjölmiðlamanna, stjórnmálafólks og hagsmunavarða atvinnulífsins sem með einhverjum hætti hafi stutt við Loga Bergmann eftir Facebook-færsluna hans í gær.

Verkin verði að tala

„Fólk í ábyrgðarstöðu verður að sýna meiri skilning á þeirri flóknu og alvarlegu áskorun sem það stendur frammi fyrir. Það gengur ekki að lofa umbótum og taka þátt í auglýsingaherferðum gegn ofbeldismenningu einn daginn en þann næsta skipa aðila í áhrifastöður sem þekktir eru í samfélaginu fyrir að tortryggja reynslusögur brotaþola,“ segir í tilkynningunni.

Ljóst er að vísað er til átaks sem Áslaug Arna tók þátt í á síðasta ári, þar sem áhersla var lögð á að trúa þolendum kynferðisofbeldis.

Samtökin kalla eftir því að staða brotaþola verði bætt og nú verði verkin að tala og benda á að ítrekað hafa verið unnar skýrslur og gefin loforð um umbætur en ekkert gerst síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina