Klíníkin veitir Landspítalanum liðsinni

Klíníkin lokar starfsemi sinni næstu þrjár vikurnar til þess að …
Klíníkin lokar starfsemi sinni næstu þrjár vikurnar til þess að aðstoða á Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klíníkin mun loka skurðstofustarfsemi sinni næstu þrjár vikurnar og fara tæplega tuttugu starfsmenn frá fyrirtækinu upp á Landspítala til þess að aðstoða þar vegna stöðunnar sem uppi er á spítalanum. Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, vonast til að þessi liðsauki dugi til þess að takast á við ástandið.

„Við höfum verið í samskiptum við stjórnendur Landspítalans og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands frá því í desember, eða svona um það leyti þegar menn gátu séð í hvað stefndi. Svo kom formleg beiðni frá ráðuneytinu á miðvikudaginn og við bárum þetta undir okkar starfsfólk. Þau voru öll til í þetta verkefni,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Sigurður segir ljóst að næstu vikurnar verði „stóra prófið“ á heilbrigðiskerfið enda sé núverandi smitbylgja stærri en sést hefur hér á landi frá upphafi faraldursins.

Sjúkratryggingar koma til með að bæta fyrirtækinu beint fjárhagslegt tjón vegna lokunarinnar en fyrirtækið heldur áfram að greiða sínu fólki laun. Starfsfólkið fer, að sögn Sigurðar, inn í „Covid-pakkann“ á spítalanum.

Leitt að valda viðskiptavinum raski

Klínikin þarf að fresta rúmlega tvö hundruð aðgerðum vegna lokunarinnar og segir Sigurður leitt að valda viðskiptavinum sínum sem greitt hafa fyrir aðgerðirnar raski vegna frestana. Flestir sýni þessu þó skilning.

„Fólk hefur þurft að gera ráðstafanir vegna þessara aðgerða, fá frí úr vinnu og annað slíkt. Þetta er því leiðinlegt vegna þess.“

Spurður hvort búið sé að ræða framhaldið ef enn er þörf á aðstoð eftir þrjár vikur segir hann: „Við byrjum á þremur vikum og svo þarf bara að taka stöðuna. Við sjáum náttúrlega ekki fyrir endann á þessu eins og er. En ég vona að þetta fari langt með þetta.“

Að lokum ítrekar hann mikilvægi þess að fólk passi upp á sóttvarnir og láti bólusetja sig.

„Þetta er bara dauðans alvara.“

mbl.is