Köttur færði ófæddri systur sinni kjól

Kötturinn Máni og prjónakjóllinn sem hann kom með heim.
Kötturinn Máni og prjónakjóllinn sem hann kom með heim. Samsett mynd

Ekki er óalgengt að kettir færi björg í bú þótt vel sé hugsað um þá heima fyrir. Hinn þriggja ára gamli Máni, sem býr í Mosfellsbæ, færði eigendum sínum þó heldur óvenjulegan hlut á dögunum. Hann kom nefnilega heim með prjónaðan barnakjól.

Það væri þó kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Elín Ósk Blomsterberg, annar eigenda Mána, er barnshafandi og á einmitt von á stúlku eftir tvær vikur.

„Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá Mána með kjólinn var að hann væri að færa litlu systur sinni gjöf,“ segir Elín í samtali við mbl.is.

Elín Ósk Blomsterberg, eigandi Mána, á von á stúlkubarni.
Elín Ósk Blomsterberg, eigandi Mána, á von á stúlkubarni. Ljósmynd/Aðsend

Fór að færa björg í bú þegar Elín varð þunguð

Segir hún Mána hafa tekið upp á því að koma heim með ýmsa misgagnlega hluti stuttu eftir að hún komst að því að hún væri ófrísk.

„Í eitt skiptið leit ég út um gluggann og sá að hann var með einhvern rosalega stóran hlut í kjaftinum á sér sem reyndist svo vera eggjabakki. Hann var alveg rosalega sáttur með sig. Það var fullt af fólki sem stoppaði bílana sína fyrir honum og fylgdist með honum rölta með bakkann heim.“

Barnakjóllinn er ekki fyrsta flíkin sem Máni hefur komið með heim, að hennar sögn. Hann hafi áður komið með ungbarnavettlinga og ullarsokka af fullorðinni manneskju.

„Svo veit ég að hann hefur nokkrum sinnum farið inn til stelpu sem ég þekki og stolið þaðan alls konar hlutum eins og skartgripapoka og leikfangamús svo eitthvað sé nefnt.“

Elín auglýsti eftir réttmætum eiganda kjólsins í hverfishóp á Facebook.
Elín auglýsti eftir réttmætum eiganda kjólsins í hverfishóp á Facebook. Skjáskot af Facebookfærslu

Eins og hann viti að fjölskyldan sé að fara stækka

Þegar Máni kom heim með barnakjólinn, sem hann hefur að öllum líkindum tekið ófrjálsri hendi, auglýsti Elín eftir réttmætum eiganda hans á hverfishóp fyrir íbúa í Hlíða- og Höfðahverfi í Mosfellsbæ á Facebook. Segir hún eiganda kjólsins fundinn.

„Eigandi hans er kona sem býr í nágrenninu. Hún var mjög ánægð að vita að kjóllinn hafi fundist því móðir hennar, sem lést í fyrra, prjónaði hann og því hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir hana. Máni hafði semsagt tekið kjólinn af pallinum heima hjá þessari konu þar sem börnin hennar höfðu verið að leik.“

Aðspurð segir hún gjafirnar sem Máni hefur fært þeim á síðastliðnum dögum og vikum benda til þess að hann viti að fjölskyldan sé að fara stækka á næstunni.

„Það er bara eins og hann viti að það sé lítil systir að fara mæta á svæðið.“

Hvernig heldurðu að hann muni taka systur sinni þegar hún fæðist?

„Ég hugsa að hann muni taka henni mjög vel. Hann er rosa barngóður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert