„Óþægilegt“ bréf um bólusetningu barst til skólastjórnenda

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendi opið bréf fyrir hönd samtakanna Frelsi og ábyrgð á fjölda aðila, meðal annars á skólastjóra leik- og grunnskóla um mögulega skaðsemi bólusetningar barna.

Hann spyr viðtakendur bréfsins meðal annars að því hvort þeir vilji skipa sér í „flokk með þeim sem hyggjast beita lyfjafræðilegum inngripum gagnvart börnum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum„ eða hvort þeir vilji „gæta varúðar og bíða meðan minnsti efi er til staðar?“

Enginn geti firrt sig ábyrgð

„Möguleg skaðsemi lyfjanna er ekki fullrannsökuð eða óumdeild. Af því leiðir að enginn getur síðar meir firrt sig ábyrgð með vísan til fákunnáttu eða upplýsingaskorts. Börn eiga að njóta vafans,“ segir í bréfi Arnars sem dagsett er 29. desember.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, deildarstjóri hjá Garðaskóla, vakti athygli á bréfinu á Twitter og segir í samtali við mbl.is það að hafa fengið bréfið í tölvupósti frá hæstaréttarlögmanni hafi verið „óþægilegt“. 

Arnar segir umræðu um að bólusetja börn í skólum gagnrýniverða en þess skal geta að bólusetningar grunnskólabarna á höfuðborg­ar­svæðinu fara fram í Laug­ar­dals­höll í næstu viku. Í fyrstu stóð til að bólusetja í skólum en vegna manneklu á heilsugæslunni var ákveðið að nýta Laugardalshöllina frekar.

Bréfið var sent á fjölmarga aðila. Bréfið í heild má …
Bréfið var sent á fjölmarga aðila. Bréfið í heild má finna neðst í fréttinni. Skjáskot

Stjórnvöldum beri að upplýsa um kosti og galla

Hjördís bendir á að Garðaskóli sé skóli á unglingastigi og því eigi bólusetning barna á aldrinum 5 til 11 ára ekki við skólann. „Við tókum þetta því ekki sem slíkt til okkar og var því ekki svarað af okkar hálfu.“

Arnar vekur athygli á því í bréfinu að bólusetning eigi að vera persónuleg ákvörðun og tekin af foreldrum og forráðamönnum án neins konar utanaðkomandi þrýstings. Þá beri stjórnvöldum að upplýsa um kosti og galla bóluefnisins.

Þá fer hann fram á það í lok bréfsins að viðtakendur þess áriti það með eigin hendi til staðfestingar á móttöku, meðvitaðir um faglega og siðferðislega ábyrgð sína í því samhengi sem um ræðir.

mbl.is