Óvissustigi við Fagradalsfjall aflétt

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að enn geti verð varhugavert …
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að enn geti verð varhugavert að fara inn á hraunbreiðuna. mbl.is/Unnur Karen

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum aflýst óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Hrinan sem hófst 21. desember var snörp og mældust um 90 jarðskjálftar yfir M 3,0 að stærð og 12 yfir M 4,0 að stærð.

Samhliða jarðskjálftunum mældust landbreytingar með GPS og gervitunglamyndum sem benda til þess að kvika hafi leitaði til yfirborðs í formi gangs sem hafi náð á um 1,5 km dýpi.  Litlar landbreytingar hafa mælst frá 28. desember sem eru merki um að kvika hafi ekki leitað ofar síðan þá.

Hættulegar aðstæður geti enn myndast

Í tilkynningunni segir jafnframt að í ljósi atburða síðustu misserin sé fylgst vel með þróuninni á Reykjanesskaga og almannavarnastig endurmetið reglulega með tilliti til jarðskjálftavirkni og landbreytinga. 

Aðstæður geti breyst hratt og því er enn vakin athygli á því að varhugavert getur verið að fara inn á hraunbreiðuna við Geldingadali og að gígum.

„Töluverðan tíma getur tekið fyrir hraun að kólna og enn þá er yfirborð og gígar óstöðugir, hrun getur orðið eða sprungur geta myndast. Auk þess má búast við að afgösun hraunsins haldi áfram um einhvern tíma og hættulegar aðstæður myndast þar sem gas getur safnast saman,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert