Andlát: Viktor Smári Sæmundsson forvörður

Viktor Smári Sæmundsson.
Viktor Smári Sæmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Smári Sæmundsson forvörður lést á Landspítalanum við Hringbraut aðfaranótt 5. janúar síðastliðins, 66 ára að aldri.

Hann var fæddur í Reykjavík 8. febrúar 1955 og var sonur hjónanna Benediktu Þorsteinsdóttur húsmóður og Sæmundar Kristjánssonar vélstjóra.

Viktor Smári ólst upp í Reykjavík. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1976 og lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1981. Hann kenndi í fjögur ár við Laugarnesskóla.

Viktor Smári nam forvörslu við Det kongelige Danske Kunstakademi – Konservatorskolen í Kaupmannahöfn á árunum 1985-1988 og var deildarstjóri forvörslu- og viðgerðardeildar Listasafns Íslands í 16 ár.

Viktor Smári stofnaði og rak Studio Stafn sem sérhæfði sig í forvörslu listaverka, sér í lagi olíumálverka, ásamt viðgerðum á öðrum listmunum. Einnig tók hann listaverk í umboðssölu og bauð upp á innrömmun og vottun listaverka. Hann hlaut viðurkenningu Myndstefs árið 2010 fyrir heiðarlega viðskiptahætti við endursölu listaverka.

Viktor Smári var um tíma formaður kjaradeildar Félags íslenskra fræða. Hann var formaður Félags íslenskra forvarða (NKF Ísland) um árabil og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Einnig sat hann í stjórn veiðifélagsins Ármanna og var formaður þess árin 2006-2007.

Viktor Smári tók ljósmyndir í fjölmargar listaverkabækur sem gefnar voru út af Listasafni Íslands og fleirum.

Eftirlifandi eiginkona hans er Ingibjörg Hafstað, hugbúnaðarsérfræðingur hjá Reiknistofu bankanna. Börn þeirra eru Solveig Viktorsdóttir, Halldór S. Viktorsson og Sæmundur S. Viktorsson

Útför Viktors verður gerð frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 19. janúar kl. 13. Streymt verður frá útförinni á vefsíðunni streyma.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »