Gera ekki ráð fyrir sömu útreið og á fimmtudag

Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu vegna þess óveðurs sem spáð er …
Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu vegna þess óveðurs sem spáð er í nótt. mbl.is/Arnþór

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, bindur vonir við að landsmenn haldi sig innandyra í kvöld og nótt á meðan versta óveðrið gengur yfir. Hann gerir ekki ráð fyrir eins miklu annríki hjá björgunarsveitum og var á fimmtudaginn.

Björgunarsveitir eru samt sem áður í viðbragðsstöðu en versta veðrið ætti að vera gengið yfir snemma í nótt.

Á að ganga yfir í skjóli nætur

„Það er allavega heppilegt að þetta kemur á þessum tíma, það er að segja um nóttina. Veðurfræðingar gera ráð fyrir að veðrið verði verst í kringum miðnætti og í nótt.“

Davíð segist ekki gera ráð fyrir sambærilegu ástandi og var aðfaranótt fimmtudags.

Heppilegri sjávarstaða nú en þá

„Þá voru menn líka með áhyggjur af sjónum og hárri sjávarstöðu, það virðist ekki vera upp á teningnum núna. Erum alltaf klár að bregðast við ef kallið kemur.“

Engar tilkynningar hafa borist björgunarsveitum það sem af er kvöldi og Davíð bindur vonir við að það haldist þannig út kvöldið:

„Það er eitthvað aðeins farið að blása í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum en engin útköll hafa borist björgunarsveitunum enn sem komið er.“

Vísar í lögregluna á Suðurnesjum

Davíð vakti svo athygli á tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum sem hvatti borgara til þess að fá sér eitthvað gott að borða og sleppa því að vera nokkuð á ferðinni.

„Ætli það sé ekki nákvæmlega það sem við ættum að gera í kvöld og í nótt.“

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert