Gul viðvörun og varasamt ferðaveður

Veðurkortið eins og það lítur út rétt fyrir miðnætti í …
Veðurkortið eins og það lítur út rétt fyrir miðnætti í kvöld.

Dagurinn í dag hefst með austlægri átt 3-10 m/s og éljum fyrir austan, en annars yfirleitt björtu veðri. Eftir hádegi fer að hvessa og þykkna upp. SA 16-25 m/s seint í kvöld og hvassast á sunnaverðu landinu. Svo fer að rigna sunnan- og vestanlands. Hiti 0 til 5 stig, en í kringum frostmark norðantil.

Frá klukkan 18 í dag er gul viðvörun í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Miðhálendinu. Hún gildir fram yfir miðnætti á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi en framundir morgun á Miðhálendinu.

Mikilvægt að tryggja lausamuni

A höfuðborgarsvæðinu má búast við suðaustan 18-25 m/s, hvassast á Kjalarnesi og snarpar vindhviður á svæðinu. Mikilvægt er að festa lausamuni utandyra.

Á Suðurlandi má búast við suðaustan 20-28 m/s og hvassast undir Eyjafjöllum með vindhviðum um og yfir 45 m/s þar. Tryggja þarf lausamuni utandyra og varasamt er að vera á ferðinni.

Á morgun er gert ráð fyrir minnkandi sunnanátt, 8-15 m/s eftir hádegi. Víða skúrir eða slydduél, en léttir til norðaustantil. Svipaðar hitatölur á morgun, en kólnar fyrir norðan seinnipartinn.

Eftir mánudaginn er útlit fyrir stífa suðvestlæga átt með slydduéljum og síðar éljum, en þurrt að mestu norðaustantil, þá kólnar einnig smám saman.

Veðurhorfur næstu daga 

Á mánudag:
Snýst í sunnan og suðvestan 8-15 m/s með skúrum eða slydduéljum víða um land, en birtir til á N- og A-landi eftir hádegi. Hiti víða 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost fyrir norðan.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt, 10-18 m/s með rigningu eða slyddu S-til í fyrstu, en síðan éljum víða um land, hvassast syðst. Lengst af úrkomulítið NA-lands. Kólnar heldur í veðri.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Stíf suðvestan- og vestanátt með éljagangi, en úrkomulaust að kalla eystra. Frystir um allt land.

Á föstudag:
Breytileg átt með snjókomu á Suður- og Austurlandi, en annars dálítil él. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Útlit fyrir stífa suðvestlæga átt með éljum, en úrkomulítið norðaustantil. Frost 0 til 8 stig.

Veður á mbl.is

mbl.is