Refsaði dætrum sínum með ofbeldi og Kóraninum

Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi af Héraðsdómi Reykjaness.
Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi af Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður sem beitti fjórar dætur sínar ítrekuðu ofbeldi síðustu ár var dæmdur í átján mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness á föstudaginn. Móðir stúlknanna var dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá voru þau bæði einnig dæmd til að greiða dætrunum miskabætur.

Ofbeldið átti sér stað víðs vegar á heimili þeirra, en oftast í svefnherbergi þeirra. Var ofbeldi mannsins jafnan með þeim hætti að hann sló stúlkurnar þar til þær hættu að gráta.

Taldi ofbelið eðlilegt

Í viðtali við barnavernd greindi ein stúlknanna frá því að faðir þeirra lemdi þær systur um fjórum sinnum í viku og notaði hann til dæmis belti, skó og herðatré.

Greindi hún einnig frá því að hann hafi látið þær sitja á rúmi meðan á barsmíðum stæði og þegar þær hafi reynt að breiða sæng yfir sig til varnar tæki hann sængina af þeim. Sömuleiðis hafi hann látið þær setjast í hring á gólfinu með útrétta fætur og slegið þær með belti í fæturna vegna þess að þær voru of lengi úti.

Önnur stúlknanna sagði við barnavernd að henni fyndist ofbeldið ekki mikið mál og sagði foreldra mega vera reiða við börn sín og aga þau.

Refsing að lesa Kóraninn

Er maðurinn var handtekinn og yfirheyrður kvaðst hann aldrei hafa lagt hendur á stúlkurnar og ekki refsa þeim, en ef þær óhlýðnuðust væru þær látnar lesa Kóraninn. Þá hafi þær einnig fengið peningaverðlaun fyrir að lesa Kóraninn.

Í dómnum er greint frá því að móðirin hafi sagt frá því að maðurinn hafi þulið stærðfræðidæmi fyrir dæturnar og ef þær svöruðu vitlaust hafi hann skammað þær og lamið með inniskó.

Segjast hafa flúið ofsóknir 

Fram kemur að fjölskyldan hafi fengið dvalarleyfi hér á grundvelli alþjóðlegrar verndar árið 2019.

Hjónin segjast hafa flúið heimaland sitt þar sem þau séu múslimar og maðurinn hafi sætt ofsóknum vegna samkynhneigðar sinnar. Þannig hafi ættingjar hans brennt hús þeirra til grunna árið 2016 og í framhaldi hótað að ræna dætrum þeirra.

Hjónin kynntust árið 2007 og hafa ýmist búið saman eða í sundur síðan þá. Þau skildu árið 2020.

mbl.is

Bloggað um fréttina