Covid-smitum fer fjölgandi á Djúpavogi

Um 500 manns búa á Djúpavogi og þar í kring.
Um 500 manns búa á Djúpavogi og þar í kring. mbl.is/Golli

Covid-smitum á Djúpavogi hefur farið fjölgandi síðan fyrsta smit greindist í byggðarlaginu á mánudaginn síðastliðinn. Þetta segir Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitastjóra á Djúpavogi, í samtali við mbl.is.

Fagna því að sýnataka fari loks fram á Djúpavogi

Inntur eftir því segir hann heildarfjölda smitaðra þó enn ekki liggja fyrir en að verið sé að skima íbúa fyrir veirunni á heilsugæslunni á Djúpavogi í dag.

„Það voru um 200 manns, sem er nærri hálft þorpið, sem fóru í sýnatöku á laugardaginn var og sem betur fer reyndust flestir þeirra vera neikvæðir.“

Samkvæmt íslenska covid-korti Kveiks eru ný covid-tilfelli á Djúpavogi þó orðin sjö talsins og fjöldi í einangrun 12.

Alls hafa sjö ný tilfelli af Covid-19 greinst á Djúpavogi …
Alls hafa sjö ný tilfelli af Covid-19 greinst á Djúpavogi frá því á sunnudaginn sl. Kort/Kveikur

Fyrir laugardaginn síðastliðinn þurftu íbúar á Djúpavogi að keyra langar vegalengdir til þess að komast í sýnatöku, ýmist á Egilsstöðum, Reyðarfirði eða á Höfn. Það var því mikið fagnaðarefni fyrir íbúa á Djúpavogi þegar Heilsugæslan á Austurlandi tilkynnti að hún hyggðist bjóða þeim upp á sýnatökur í þeirra eigin sveitarfélagi, að sögn Eiðs.

„Við erum nefnilega búin að kvarta yfir þessu í allt haust, bæði hvað varðar skimunina og bólusetningarnar. Það er svo vont að missa hálfan dag úr vinnu til þess að fara í skimun.“

Spurður segir Eiður flest smit sem greinst hafa  í sveitarfélaginu fram að þessu vera tengd leikskólanum Bjarkartúni, þar sem fyrsta smitið kom upp á mánudaginn sl.

„Þetta eru aðilar sem tengjast leikskólanum og aðilar sem tengjast einhverjum sem tengist leikskólanum. Þetta er svo lítið samfélag að það eru allir tengdir öllum einhvern veginn.“

Allt þorpið undir og því mikilvægt að passa sig

Hefur verið gripið til einhverra sérstakra aðgerða til að hefta frekari útbreiðslu smita í sveitarfélaginu?

„Ekki svo að ég viti til nei, ekkert fyrir utan þessar hefðbundnu sóttvarnarráðstafanir. Nemendur í Djúpavogsskóla sem eiga systkini á leikskólanum voru reyndar sendir heim þegar upp komst um fyrsta smitið þannig grunnskólinn er svona hálffullur núna.“

Ekki liggur fyrir hvort leikskólinn Bjarkartún hefur verið opnaður að nýju eftir helgina en líklegast verður hann opnaður þegar niðurstöður úr sýnatökum í dag liggja fyrir, að sögn Eiðs.

Spurður segir hann íbúa svolítið uggandi yfir stöðunni enda um lítið sveitarfélag að ræða.

„Ef það kemur upp smit sem ekki næst að rekja, greina og einangra strax þá er allt þorpið undir. Þannig það er mjög mikilvægt að fólk passi sig.“

Hvorki náðist í Heilsugæsluna á Djúpavogi né Guðrúnu Sigríði Sigurðardóttur, leikskólastjóra á Bjarkatúni við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert