Ekkert skólahald í viku vegna smita

Kerhólsskóli er miðstöð samfélagsins í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Kerhólsskóli er miðstöð samfélagsins í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert skólahald verður í Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi í þessari viku sökum kórónuveirusmita. Öll börn og starfsfólk skólans eru annaðhvort í sóttkví eða einangrun. Fjögur smit hafa greinst meðal barna í skólanum, bæði á leikskólanum og grunnskólanum, og tvö smit meðal starfsfólks. 

Jóna Björg Jónsdóttir, skólastjóri Kerhólsskóla, segir í samtali við mbl.is að skólinn hafi verið heppinn hingað til þar sem þetta sé í fyrsta sinn sem smit komi upp innan skólans.

Því hafi skólahald gengið nokkuð smurt fyrir sig hingað til og ekki verið um nein vandræði sökum smita eins og margir aðrir skólar hafa glímt við í faraldrinum.

Allir fari í skimun áður en þeir mæta aftur í skólann

„Við höfum verið svo heppin að þetta er fyrsta smitið sem kemur upp síðan faraldurinn hófst, það hefur ekkert smit komið upp fyrr en núna,“ segir Jóna og bætir við að skólinn sé lítill og samfélagið þétt og því sé ekki skrýtið að svo margir greinist í einu.

Jóna segir það erfiða stöðu að þurfa að loka skólanum í viku en að það verði gott að byrja skólahald í næstu viku eftir að öll börn og allt starfsfólk verði búið að fara í skimun.

„Það kemur enginn aftur inn í skólann fyrr en að hann er búinn að fara í próf og þá er þetta alveg á hreinu allavega í næstu viku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina