Mygla í leikskólanum Vesturborg

Mygla greindist í elsta hluta húsnæðis leikskólans Vesturborgar í Vesturbæ.
Mygla greindist í elsta hluta húsnæðis leikskólans Vesturborgar í Vesturbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mygla hefur greinst í elsta hluta leikskólans Vesturborgar, Skála, og mun því öll kennsla í þeim hluta fara fram í aðalbyggingu á meðan framkvæmdatími stendur yfir.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Leitað var til umhverfis- og skipulagssviðs fyrir áramót og óskað eftir skoðun og mögulegum viðgerðum á svæði í salnum í Skála. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að taka sýni þar sem grunur lék á rakaskemmdum. Var sömuleiðis tekin sýni á öðrum stöðum í húsinu. Greindist mygla á tveimur svæðum í sal og krók, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Tekin var ákvörðun um að flytja öll börnin sem voru áður í Skála yfir í aðalbyggingu strax eftir hádegi í dag. Verða deildirnar í byggingunum sameinaðar í eina deild á meðan framkvæmdir standa yfir.

Umfang framkvæmda liggur enn ekki fyrir en mygla greindist á svæði skólans sem er að hluta til niðurgrafinn. Búast má við að byrjað verði að grafa frá veggjum síðdegis í dag. 

Munir á borð við húsgögn, leikföng og bækur, sem flutt verða með börnunum, verða hreinsuð með sérstökum hætti á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert