Náðu upplýsingum um laun og hljóðupptökur

Strætó varð fyrir netárás í lok desember.
Strætó varð fyrir netárás í lok desember. mbl.is/Hari

Tölvuþrjótarnir sem stóðu á bak við netárásirnar á netkerfi Strætó komust yfir aðgang að gagnagrunnum sem hafa að geyma afrit af upplýsingum úr Þjóðskrá og kerfiskennitöluskrám.

Þetta kemur fram í tilkynningu Strætó.

Rannsókn á netárásinni sem Strætó varð fyrir í lok desember er á lokastigi og liggur nú skýrar fyrir hvaða upplýsingar og gögn það eru sem tölvuþrjótarnir hafa komist yfir. 

Samkvæmt tilkynningu Strætó er um að ræða upplýsingar úr:

Þjóðskrá þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem eru eða hafa verið skráðir til lögheimilis á Íslandi og íslenska ríkisborgara búsetta erlendis, þ.e. upplýsingar um nafn, kennitölu, kyn, lögheimili, hjúskaparstöðu, fjölskyldunúmer, birtingarnafn, afdrif (týndur eða látinn), og bannmerkingu auk nafns og kennitölu maka.

Og einnig upplýsingar úr Kerfiskennitöluskrá, þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem eru eða hafa verið búsettir á Íslandi án lögheimilis, þ.e. upplýsingar um nafn, kerfiskennitölu, kyn, dvalarstað, dagsetningu nýskráningar, númer viðkomandi í skránni og birtingarnafn

Upplýsingarnar gætu hafa verið afritaðar

Enn bendir ekkert til þess að tölvuþrjótarnir hafi misnotað upplýsingarnar en ekki er hægt að útiloka að þær hafi verið afritaðar með einhverjum hætti. Gæti komið til þess að þær verði birtar opinberlega af hálfu tölvuþrjótanna.

Uppfærður listi netkerfa og gagna sem tölvuþrjótarnir komust í:

  • Afrit af þjóðskrá: þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem eru eða hafa verið skráðir til lögheimilis á Íslandi og íslenska ríkisborgara búsetta erlendis, þ.e. upplýsingar um nafn, kennitölu, kyn, lögheimili, hjúskaparstöðu, fjölskyldunúmer, birtingarnafn, afdrif (týndur eða látinn), og bannmerkingu auk nafns og kennitölu maka.
  • Afrit af kerfiskennitöluskrá: þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem eru eða hafa verið búsettir á Íslandi án lögheimilis, þ.e. upplýsingar um nafn, kerfiskennitölu, kyn, dvalarstað, dagsetningu nýskráningar, númer viðkomandi í skránni og birtingarnafn.
  • Launakerfi Strætó þar sem finna má tengiliðaupplýsingar, reikningsupplýsingar og launaupplýsingar núverandi og fyrrverandi starfsfólks Strætó.
  • Mannauðskerfi Strætó þar sem finna má tengiliðaupplýsingar, ráðningarsamninga og önnur mannauðstengd gögn fyrrverandi og núverandi starfsfólks Strætó.
  • Málaskrá Strætó þar sem finna má afrit af erindum og fyrirspurnum frá almenningi, tengiliðaupplýsingar forsvarsmanna birgja, samstarfsaðila og verktaka, sem og afrit af umsóknargögnum umsækjenda um störf .
  • Bókhaldskerfi Strætó þar sem finna má tengiliðaupplýsingar forsvarsmanna birgja, samstarfsaðila og verktaka, sem og afrit af reikningum.
  • Móttökukerfi þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem heimsótt hafa skrifstofur Strætó, þ.e upplýsingar um nafn (yfirleitt fornafn aðeins skráð), upplýsingar um hvaða starfsmann viðkomandi er að fara hitta og upplýsingar um tímasetningu og lengd fundar.
  • Netkerfi Strætó þar sem finna má upplýsingar um hljóðupptökur símtala sl. 90 daga áður en árásin átti sér stað.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert