Ræningjarnir létu aftur sjá sig í Laugardalshöll

Ræningjarnir kíktu aftur í heimsókn í dag.
Ræningjarnir kíktu aftur í heimsókn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetning barna á aldrinum fimm til ellefu ára fór fram annan daginn í röð í Laugardalshöll í dag. Frá hádegi hafa um 2.500 börn fengið sinn fyrsta skammt af bóluefni gegn Covid-19, sem gera ríflega tvöfalt fleiri en í gær, þegar um 1.200 börn mættu í fylgd forsjáraðila.

Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ræningjarnir úr Kardemommubænum kíktu aftur í heimsókn í höllina í dag, börnunum til mikillar ánægju, en þegar blaðamaður náði tali af Ragnheiði mátti heyra óm af tónlist og skemmtanahaldi í bakgrunni.

„Þetta hefur gengið alveg einstaklega vel og runnið bara ljúflega í gegn.“

Foreldrar fá bólusetningu með börnum

Að sögn Ragnheiðar var mætingarhlutfallið nokkuð svipað og í gær, eða í kringum 70%, en um 3.500 börn á höfuðborgarsvæðinu fengu boð í bólusetningu í dag.

Gripu fjölmargir foreldrar einnig tækifærið og nýttu ferðina í Laugardalinn til þess að þiggja sinn örvunarskammt. 

„Þetta virkar líka svo vel á börnin. Þá eru börnin að fá og foreldrarnir líka. Þá eru allir sáttir.“

Fjöldi foreldra nýttu ferðina og fengu einnig örvunarskammt.
Fjöldi foreldra nýttu ferðina og fengu einnig örvunarskammt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engir mótmælendur

Aðspurð segir Ragnheiður enga mótmælendur hafa verið sjáanlega fyrir utan höllina í dag. Hún veltir þó upp hvort að heimsóknin úr Þjóðleikhúsinu hafi haft eitthvað með það að gera.

„[Mótmælendurnir] létu ekki sjá sig. Nema ræningjarnir hafi rænt þeim, það gæti líka verið,“ segir hún glettin í bragði.

Um 2.500 börn á aldrinum fimm til ellefu ára fengu …
Um 2.500 börn á aldrinum fimm til ellefu ára fengu sinn fyrsta skammt af bóluefni gegn Covid-19 í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert