50% þátttaka í rannsókn ÍE

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á bilinu 600 til 1.000 manns eru búnir að mæta í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu vegna rannsóknar fyrirtækisins á raunverulegri útbreiðslu kórónuveirunnar.

„50% þeirra sem er boðið upp á að koma, þeir koma, sem er ansi gott,“ segir forstjórinn Kári Stefánsson, en sýnatakan fer fram í Turninum í Kópavogi.

„Við verðum búin að afla alls þess sem við þurfum í lok þessarar viku og síðan verðum við komin með niðurstöðu í næstu viku,“ bætir hann við en markmiðið er að 1.000 manns hafi tekið þátt í sýnatökunni í lok vikunnar.

Turninn í Kópavogi.
Turninn í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aftur verða tekin sýni eftir mánuð og helst þá hjá sama fólkinu til að sjá hvernig veiran breiðist út.

Síðast þegar Íslensk erfðagreining gerði samskonar rannsókn ákvarðaði Persónuvernd að fyrirtækið hefði gerst brotlegt við lög. Spurður hvort stofnunin hafi haft samband út af nýju rannsókninni segir Kári hana ekki ennþá hafa gert það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert