Andlát: Arna Schram

Arna Schram.
Arna Schram. Ljósmynd/Rut Sigurðardóttir

Arna Schram, sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg og fv. formaður Blaðamannafélags Íslands, lést á Landspítalanum í gær, 53 ára að aldri.

Arna fæddist 15. mars árið 1968 í Reykjavík, dóttir Ellerts B. Schram, fv. ritstjóra og þingmanns, og Önnu Guðlaugar Ásgeirsdóttur tölvuritara.

Hún ólst upp í Reykjavík, gekk í Vesturbæjarskólann og Hagaskóla og varð stúdent frá MR árið 1988. Arna lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, auk MBA-gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.

Arna hóf störf í blaðamennsku ung að árum, byrjaði á DV en fór þaðan á Morgunblaðið vorið 1995. Þar starfaði hún allt til ársins 2006 sem blaðamaður á innlendri fréttadeild, lengst af sem þingfréttaritari en sinnti einnig kvöldfréttastjórn um skeið. Arna skrifaði jafnframt viðhorfs- og þingpistla í Morgunblaðið.

Hún var aðstoðarritstjóri tímaritsins Króníkunnar um skamman tíma og eftir það fréttastjóri á Viðskiptablaðinu um þriggja ára skeið.

Árið 2010 var Arna ráðin upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar og ári síðar varð hún forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ. Frá vormánuðum 2017 til dauðadags gegndi hún starfi sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Meðfram þeim störfum var hún m.a. stjórnarformaður Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík, Meet in Reykjavik.

Hún starfaði um hríð hjá Háskólanum í Reykjavík og var formaður Listdansskóla Íslands.

Arna gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands (BÍ) og tók virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á þeim vettvangi. Var varaformaður félagsins 2003-2005 og formaður á árunum 2005-2009. Þá átti hún sæti í fjölmiðlanefnd, sem fulltrúi BÍ.

Eftirlifandi dóttir Örnu er Birna Ketilsdóttir Schram, f. 1994.

Morgunblaðið þakkar Örnu samfylgdina og góð störf og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »