Býður sig fram eftir að hafa horft á Æði

Guðmundur Ingi Þóroddsson.
Guðmundur Ingi Þóroddsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, gef­ur kost á sér á lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar fyr­ir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar í vor, og ósk­ar eft­ir stuðningi í þriðja sæti í for­vali flokks­ins 12.‒13. fe­brú­ar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðmundi.

Skúli Helga­son, formaður skóla- og frí­stundaráðs borg­ar­inn­ar, og Hjálmar Sveinsson, formaður menn­ing­ar-, íþrótta- og tóm­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar, hafa einnig óskað eft­ir stuðningi í þriðja sætið í for­val­inu.

Guðmundur segir markmiðið með framboði sínu að fjölga kjósendum Samfylkingarinnar og snúa þeim við sem kosið hafa aðra flokka.

„Samfylkingin mun leggja fram sigurstranglegan lista, flokkurinn mun auka fylgi sitt í borginni og við munum ná markmiðum okkar. Allur stuðningur og góðar ábendingar eru vel þegnar enda mun árangurinn ekki síst ráðast af samtali og samstarfi – ekki bara núna í aðdraganda kosninga, heldur til frambúðar,“ segir í tilkynningunni.

Æði-strákarnir segja það sem þeir hugsa

Guðmundur segir að þættirnir Æði, með þá Bassa, Binna og Patrek í aðalhlutverkum hafi hvatt hann til að bjóða sig fram.

„Mér fannst mikið til koma og ég hreifst af hispursleysi þeirra og framtakssemi. Þeir segja það sem þeir hugsa og gera það sem það þeir vilja. Eitthvað ræddu þeir strákarnir um stjórnmál og sagðist Binni vera vinstri maður en Patrekur beygist til hægri, eða þar til hann áttaði sig á því fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur í raun og veru,“ segir í tilkynningu Guðmundar.

„Eftir að hafa „kynnst“ þessum eðaldrengjum, með hámhorfi, þá hugsaði ég með mér hversu dásamlegt það hefði nú verið ef ég hefði haft þeirra gildi, þeirra þor og dugnað á sama aldri. Eftir síðasta þáttinn ákvað ég að liggja ekki lengur undir feldi, taka strákana í Æði mér til fyrirmyndar og kýla á ákvörðun,“ segir þar enn fremur.

Guðmundur brennur fyrir málefnum jaðarsettra og minnihlutahópa auk þess muni hann standa með smærri fyrirtækjum og úthverfum borgarinnar.  Nánar má lesa um hans málefni á síðunni gudmunduringi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert