Dauða svartfugla rekur á fjörur

F.v. Hálfdán H. Helgason líffræðingur og Páll Leifsson veiðimaður kryfja …
F.v. Hálfdán H. Helgason líffræðingur og Páll Leifsson veiðimaður kryfja dauðan svartfugl í Berufirði. Eiður Gísli Guðmundsson hreindýraleiðsögumaður frá Lindarbrekku er við stýrið á bílnum. Hann lét vita af svartfugladauðanum í Fossvík í Berufirði.

Fjölda dauðra svartfugla hefur rekið á fjörur á Austfjörðum undanfarið. Starfsmenn Náttúrustofu Austurlands fóru á vettvang í dag og könnuðu fjörur frá Berufirði að botni Reyðarfjarðar. Þar fundust hræ 273 svartfugla, mest álkur, langvíur og haftyrðlar.

„Hræin voru flest orðin nokkuð skorpin og velkt en af þeim fuglum sem voru nokkuð heilir mátti meta að flestir, þó ekki allir, fuglanna voru mjög horaðir,“ segir á vef Náttúrustofunnar.

Tugir þúsunda féllu 2001-2002

Eins segir þar að rannsóknir bendi til þess að sjófuglar eigi erfitt með að afla sér ætis þegar veður eru válynd. Þekktir eru atburðir þar sem þúsundir, jafnvel tugþúsundir sjófugla hefur rekið á land.

Einn slíkur fellir varð hér við land veturinn 2001-2002 og þá var áætlað að tugir þúsunda svartfugla hafi horfallið í hafinu vestur, norður og austur af Íslandi.

Matvælastofnun (MAST) fékk sýni af fuglunum til rannsóknar.

Mikið um fuglaflensu í Evrópu

Stofnunin birtir í dag tilkynningu um sjófugladauðann og minnir á að mikið sé um fuglaflensu í Evrópu um þessar mundir, bæði í villtum fuglum og alifuglum. Ólíklegt er talið að fuglaflensusmit valdi slíkum fjöldadauða í villtum fuglum. Engu að síður ætlar MAST að sjá til þess að sýni verði rannsökuð á Tilraunastöð HÍ að Keldum.

Flestar fuglaflensugreiningar í Evrópu eru af skæðu afbrigði fuglaflensuveirunnar H5N1. Finnist dauður fugl sem augljóslega hefur ekki drepist af slysförum þarf að hafa samband við stofnunina. Fuglaflensuveiran sem algengust er í nágrannalöndunum hefur ekki valdið sýkingum í fólki, að sögn MAST.

mbl.is