Fresta afhendingu íbúða í Gufunesi

Íbúðir Þorpsins vistfélags í Gufunesi þykja ódýrar og hafa verið …
Íbúðir Þorpsins vistfélags í Gufunesi þykja ódýrar og hafa verið eftirsóttar sem fyrsta eign hjá ungu fólki. mbl.is/Björn Arnar Ólafsson

Kaupendum á íbúðum hjá Þorpinu vistfélagi í Gufunesi hefur verið tilkynnt að afhending íbúða þeirra dragist um allt að þrjá mánuði. Um er að ræða 41 íbúð alls í tveimur húsum, fyrstu íbúðir kaupenda og taka kjörin mið af því.  

Samkvæmt ábendingu sem barst mbl.is frá einum kaupenda er um þriðju seinkun á afhendingu frá úthlutun fyrir rúmu ári síðan. Við kaupsamning var uppgefin afhending 1. febrúar næstkomandi en í bréfi frá framkvæmdastjóra Þorpsins til kaupenda segir að afhending sé nú áætluð um miðjan apríl en í síðasta lagi þann 1. maí. 

Í ábendingu frá kaupandanum kemur fram að Þorpið hafi ekki svarað tölvupóstum og ætli sér ekki að semja við kaupendur „þrátt fyrir að hafa tilkynnt 3 mánaða seinkun með 1 mánaðar fyrirvara“. 

Umræddur kaupandi kveðst jafnframt vera ósáttur við að verð fasteignarinnar hafi hækkað um um það bil 100 þúsund krónur á mánuði þar til kaupsamningur var gerður og áfram eftir það þar sem komið hafi fram í „smáa letrinu“ að verðið sé bundið við byggingarvísitölu. Verð við afhendingu sé því töluvert hærra en það sem standi í kaupsamningi. „Það lítur allt út fyrir það að þeir séu að taka allan kostnað og umfram það út á ungum fyrstu kaupendum með samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar,“ segir í bréfi kaupandans. 

Runólfur Ágústsson, þróunar- og verkefnastjóri hjá Þorpinu vistfélagi.
Runólfur Ágústsson, þróunar- og verkefnastjóri hjá Þorpinu vistfélagi.

Runólfur Ágústsson, þróunar- og verkefnastjóri hjá Þorpinu vistfélagi, segir að í raun sé að um tvær seinkanir sé að ræða frá því samið var um kaupin. „Ástæðan fyrir þessari þriggja mánaða seinkun nú er fyrst og fremst þetta blessaða Covid. Aðstreymi af aðföngum hefur verið mjög tregt og svo bættist við seinkun á afhendingu á heitu vatni og rafmagni frá Veitum.“

Hann segir jafnframt að eftir fundarhöld með verktökum hafi verið ákveðið endanlega að aftengja vísitölutengingu íbúðanna frá og með 1. febrúar þegar átti að afhenda þær. „Það er bara sanngirnismál. Við munum svo reyna að greiða úr málum hvers og eins kaupenda.“

Runólfur segir enn fremur að eðlilegt sé að verð íbúðanna sé tengt við byggingarvísitölu. „Við erum með samning við verktakann sem er vísitölutengdur miðað við byggingarvísitölu og við tryggjum okkur með sama hætti. Kaupendur eru að fá vandaðar og góðar íbúðir á 5-8 milljónir undir markaðsvirði. Þær hafa á byggingartíma hækkað í verði langt umfram byggingarvísitölu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert