Liggur ekki fyrir hvort meira verði keypt af X-Mist

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss hjá Rauða krossinum.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss hjá Rauða krossinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvöhundruð litlir brúsar af X-Mist sótthreinsandi úða voru keyptir inn í farsóttarhús Rauða krossins í síðustu viku. Þetta staðfestir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður húsanna í samtali við mbl.is. 

Færsla á Facbook-síðu X-Mist Ísland, sem hefur nú verið tekin út, þar sem fram kemur að úðinn sé notaður á farsóttarhúsum hafa vakið töluverða reiði á meðal ungra kvenna á samfélagsmiðlum, en félagið er að hluta í eigu Ingólfs Þórarinssonar, Ingós Veðurguðs.

Ingólfur dró sig í hlé í tónlist á liðnu ári eftir að fjölmargar sögur tengdar #metoo-byltingunni voru gerðar opinberar af honum. Sögurnar voru bæði af kynferðislegu ofbeldi og áreitni.

Hvatt hefur verið til sniðgöngu á vörum fyrirtækisins og vöktu því fréttir af kaupum farsóttarhúsanna hörð viðbrögð.

Hafi reynst vel

Gylfi segir að fyrst hafi húsunum verið gefin sýnishorn, eins og aðrir innflytjendur hafa gert, og síðar hafi verið tekin ákvörðun um leggja inn eina pöntun. Enn er verið að prófa efnið og ekkert liggur fyrir um hvort að meira verði pantað af því. 

„Við notum X-Mist í herbergjum þar sem hefur verið reykt inni. Við tókum þetta til prófunar, eins og margt annað, vegna þess að reykingar eru ákveðið vandamál. Við höfum prófað mörg efni til að vinna á reykingarlyktinni,“ segir Gylfi. 

Hann segir að margar tilraunir hafi verið gerð með ýmsum lausnum en X-Mist hafi komið best út. Því hafi verið tekin ákvörðun um að kaupa tvö hundruð brúsa, til þess að halda áfram prófunum. 

Gylfi segist hafa orðið var við umræðuna á samfélagsmiðlum um kaupin. „Mitt helsta verkefni er að tryggja öryggi starfsmanna okkar og gesta. Spritt hefur reynst ætandi á marga hluti á herbergjum og þar af leiðandi höfum við verið að leita lausna til að minnka notkun á spritti eins og við mögulega getum. Margvísleg efni hafa verið prófuð og við höfum einnig fylgst með rannsóknum erlendis frá um virkni efna. Þetta ákveðna efni hefur komið mjög vel út í þeim rannsóknum og svo bætist það við að þetta hjálpar í baráttunni við reykingarlyktina,“ segir Gylfi. 

Tók ákvörðun í ljósi sóttvarna

Hann segir að hann hafi tekið ákvörðun um að halda áfram prófunum á efninu en ekki liggi fyrir hvort að keypt verði meira af efninu.

„Ég og við styðjum þolendur í kynferðisbrotamálum. Þarna þurfti ég að taka þessa ákvörðun í ljósi sóttvarna og ítreka að við erum enn bara að prófa efnið.“

mbl.is