Slasaðist alvarlega í hoppukastalaslysinu

Ríflega hundrað börn voru í hoppukastalanum þegar hann fór á …
Ríflega hundrað börn voru í hoppukastalanum þegar hann fór á loft. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Systurnar Ásthildur og Auðbjörg Björnsdætur stofnuðu nýlega áheita- og styrktarsíðuna „Áfram Klara“ á Facebook þar sem hópur ættingja, vina og kunningja styðja við fjölskyldu Klöru, stelpu sem slasaðist alvarlega í hoppukastalaslysi á Akureyri síðasta sumar.

Í slysinu sem varð fyrir um hálfu ári síðan voru ríf­lega hundrað börn í hoppu­kastala við Skautahöllina á Akureyri þegar hann fauk upp nokkra metra frá jörðu.

Sex börn voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar eftir slysið, meðal annars hin sex ára gamla Klara sem flogið var með í sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hún lá á gjörgæslu.

Í dag er Klara orðin sjö ára gömul og hefur staðið í langri endurhæfingu.

„Maður verður einhvernveginn svo vanmáttugur þegar eitthvað svona gerist. Það er eitthvað svo lítið sem að manni finnst vera hægt að gera svona á hliðarlínunni,“ segir Ásthildur frænka Klöru, í samtali við mbl.is.

Ásthildur Björnsdóttir, Berglind Gísladóttir og Auðbjörg Björnsdóttir á æfingu fyrir …
Ásthildur Björnsdóttir, Berglind Gísladóttir og Auðbjörg Björnsdóttir á æfingu fyrir Landvætt. Ljósmynd/Ásthildur Björnsdóttir

Smituðust af eldmóðnum

Viðburðurinn Ultra-Landvættur, sem haldinn er í fyrsta skipti þann 30. apríl, verður í ár til styrktar Klöru og fer hann fram á Akureyri. 

Landvættur er fjölþrautafélag þar sem viðkomandi þarf að afreka fjórar þrautir á innan við tólf mánuðum til þess að geta orðið Landvættur. Þrautirnar fara fram í mismunandi landshlutum en hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Landvættar.

„Við sjáum – og mamma hennar Klöru hefur talað um það – hvað útivera og hreyfingin hefur gefið [mömmu hennar] mikið í að komast í gegnum þetta og að geta sinnt Klöru. Svo ákvað hún að taka þátt í hálfvættunum sem er angi út frá Landvætta prógramminu og við í kringum hana smituðumst af eldmóðinum í henni og ákváðum að koma með.“

Í dag hafa 18 manns ákveðið að vinna þetta verkefni með móðurinni og klára hálfan, heilan eða ultra Landvætt árið 2022, eða hluta af þrautunum, til að sýna Klöru og fjölskyldunni stuðning í verki.

Ásthildur segir gaman að sjá hve margir eru tilbúnir að stíga langt út fyrir þægindarammann, sem hafa jafnvel aldrei áður stigið á gönguskíði eða prófað aðrar þrautir.

Þá hafa systurnar Ásthildur og Auðbjörg, frænkur Klöru, einnig stofnað styrktarreikning til þess að létta undir með fjölskyldunni.

Framtíðin óskrifuð

Að sögn Ásthildar er endurhæfing Klöru enn í gangi en hún segir að hún gangi vel. Ljóst er þó að endurhæfingin muni taka langan tíma og því sé framtíðin óskrifuð.

Hægt er að fylgjast með áheita- og styrktarsíðu Klöru á Facebook en þar mun hópurinn sem tekur þátt í Landvættum segja og sýna frá undirbúningi og ferlinu öllu. Þeir sem vilja geta styrkt Klöru og fjölskyldu hennar í gegnum styrktarreikning hér að neðan.

Kennitala: 081114-2500

Banki: 0123-15-043225

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert