Sóttkvíin lengdist eftir að sýnin týndust

Starfsmaður sýnatöku segir ekki um algeng mistök að ræða.
Starfsmaður sýnatöku segir ekki um algeng mistök að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm daga sóttkví fjölskyldu lengdist töluvert eftir mistök sem urðu þess valdandi að sýni þeirra úr PCR-sýnatöku týndust. Voru því engar niðurstöður fáanlegar í byrjun viku þegar þeirra mátti vænta.

Starfsfólk við sýnatöku á Suðurlandsbrautinni segir slík mistök fátíð og þá sér í lagi þar sem sýnin hafi verið úr einni og sömu fjölskyldunni.

Að sögn Björns Þorfinnssonar, fjölskylduföðurins og ritstjóra DV, voru mistökin þó mögulega lán í óláni þar sem niðurstöður úr sýnatökum í dag leiddu í ljós af þrír af heimilismönnunum í sóttkví reyndust smitaðir af kórónuveirunni. Væri ekki öruggt að smitið hefði greinst á sunnudag, þó ómögulegt sé að fullyrða um slíkt.

Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV.
Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjórir heimilismenn í sóttkví

Að sögn Björns greindust tvö smit á heimilinu í síðustu viku og urðu því fjórir aðrir heimilismenn að sæta sóttkví fyrir vikið og fara í tvær sýnatökur. Fóru fjórmenningarnir í seinni sýnatöku nú á sunnudag og hefði neikvæð niðurstaða úr henni bundið enda á sóttkví þeirra.

Á mánudagskvöldi var Björn farið að lengja eftir niðurstöðu og ákvað að hringja og athuga hvenær væri von á svari. Fékk hann þá þær upplýsingar að það gæti tekið allt að 48 klukkustundir þar til niðurstöður myndu berast og var hann því beðinn um að bíða rólegur þangað til að haft yrði samband.

Að öðrum sólarhringi liðnum ákvað Björn enn og aftur að hringja þar sem niðurstöðurnar höfðu ekki komið í hús fyrir þann tíma. Fór hann þá að gruna að ekki væri allt með felldu.

„Og þá fékk ég þau svör að það væri ekkert skráð sýni frá okkur. Öll fjögur voru týnd og tröllum gefin,“ segir Björn og bætir við að þetta hafi verið einstaklega óheppilegt þar sem börnin hafi þurft að vera enn lengur í sóttkví.

Voru þá tveir möguleikar í stöðunni, annars vegar að sæta sóttkví í rúma viku til viðbótar og hins vegar að fara aftur í sýnatöku í dag. Varð seinni valkosturinn fyrir valinu.

„Sá yngsti er eins árs og er ekki mikill aðdáandi þess að mæta þarna upp frá. Það var alveg pínu pirrandi að fara með þrjá krakka þarna inn. En maður verður bara að bíta í það súra.“

Ekki algeng mistök

Björn greindi fyrst frá óförunum á Twitter í gær og spurði þá hvort aðrir hefðu svipaða reynslu til að deila.

Og fékkstu einhver svör?

„Það hafði enginn lent í neinu sambærilegu.“

Aftur á móti hafi hann fengið þær upplýsingar frá starfsfólki á Suðurlandsbraut að það væri afar fátítt að sýni skyldu týnast, hvað þá frá heilli fjölskyldu.

„Þannig maður er alveg einstakur hvað þetta varðar. Einstaklega óheppinn. En þetta var mjög fúlt,“ segir Björn og hlær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert