Afléttingar ekki í kortunum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur líklega lagt til hertar aðgerðir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur líklega lagt til hertar aðgerðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afléttingar á sóttvarnaaðgerðum vegna Covid-19 eru ekki í kortunum. Slíkt væri órökrétt í ljósi stöðunnar á Landspítalanum og neyðarstigs al­manna­varna. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Í nokkrum nágrannalöndum Íslands hefur verið tilkynnt um afléttingar.

Þórólfur sendi Will­um Þór Þórs­syni heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað með nýjum tillögum að sótt­varnaaðgerðum fyrr í dag. Verður að teljast líklegt að hann leggi til harðari aðgerðir en nú eru í gildi.

Víðtæk smit skapa vandamál

Þið gáfuð út spá fyrir viku. Besta spá fyrir daginn í dag gerði ráð fyrir 49 á sjúkrahúsi og níu á gjörgæslu en staðan er sú að 43 eru á sjúkrahúsi og sex á gjörgæslu. Sem sagt vel undir bestu spá, er staðan því ekki miklu betri en búist var við?

„Staðan er ekki miklu betri. Við erum með veikindi víða í samfélaginu. Það eru þessi víðtæku smit sem eru bæði að veikja starfsfólk og sjúklinga sem skapa mikið vandamál. Þó er ánægjulegt að fleiri séu ekki á gjörgæslu.“

Hvert land horfi á sína stöðu

Bæði í Danmörku og Bretlandi er verið að fara í afléttingar þar sem margir eru bólusettir. Telur þú að hægt sé að gera slíkt hér?

„Menn eru að aflétta í ljósi stöðunnar hjá sér. Hvert og eitt land verður að horfa á sína stöðu. Við á Íslandi þurfum að skoða okkar stöðu. Það er mjög fróðlegt að sjá hvað aðrir gera en það ræður ekki úrslitum um það sem við eigum að gera. 

Miðað við það hvernig heilbrigðiskerfið hefur verið, með Landspítalann á neyðarstigi og búið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna, þá sýnist mér ekki í kortunum að fara að aflétta til að fá enn þá meiri útbreiðslu og veikindi. Það væri nú kannski órökrétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert