Blinken vildi eiga orð við Þórdísi

Þórdís Kolbrún ræddi við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag.
Þórdís Kolbrún ræddi við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag. Samsett mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti í dag símafund með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Ræddu gott samstarf landanna

Í tilkynningunni segir að Blinken hafi óskað eftir símtali í því skyni að árna Þórdísi Kolbrúnu velfarnaðar í nýju embætti.

Ráðherrarnir ræddu jafnframt sameiginleg sjónarmið og gott samstarfs Íslands og Bandaríkjanna, þar með talið á sviði öryggis- og varnarmála, loftslagsmála og viðskipta.

Ísland og Bandaríkin oftast sammála

Tekið er fram að Þórdís Kolbrún hafi sagt að almennt væru Ísland og Bandaríkin sammála um þau mál sem væru efst á baugi á alþjóðavettvangi, hvort sem það væru málefni norðurslóða eða mikilvægi lýðræðis og mannréttinda.

„Bandaríkin eru stærsta viðskiptaland Íslands, en tengsl ríkjanna rista mun dýpra. Má þar meðal annars nefna menningu, vísindi, íþróttir og afþreyingu. Ég tel að Íslendingum líði sérstaklega vel þegar þeir heimsækja Bandaríkin, það hefur að minnsta kosti verið mín reynsla, og ég vona að bandarískir ríkisborgarar finni fyrir svipaðri tilfinningu þegar þeir heimsækja Ísland,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu í tilkynningunni.

Antony Blinken kom til Íslands í maí síðastliðnum til þess að sækja ráðherrafund Norðurskautsráðsins. Hann átti auk þess tvíhliða fundi með þáverandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og hitti forsætisráðherra og forseta Íslands. Þá heimsótti Blinken meðal annars Hellisheiðarvirkjun þar sem hann kynnti sér meðal annars Carbfix-verkefnið, og öryggissvæðið í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert