Fella niður allt skóla- og frístundastarf

Allt skólastarf verður fellt niður í Seljaskóla á morgun og …
Allt skólastarf verður fellt niður í Seljaskóla á morgun og á mánudaginn. mbl.is/Hari

Allt skólastarf fellur niður í Seljaskóla á morgun og á mánudaginn vegna fjölda Covid-smita hjá bæði nemendum og starfsmönnum. Þá fellur frístundastarf í hverfinu einnig niður sem og íþróttaæfingar ÍR hjá grunnskólabörnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Ákvörðunin er tekin í samráði við almannavarnir og skóla- og frístundasvið borgarinnar.

Fram kemur að um sé að ræða frístundastarf hjá Vinaseli, Regnboga og Hólmaseli auk þess sem ÍR hefur felt niður allar æfingar hjá grunnskólabörnum.

Staðan er þannig að ekki hefur tekist að ná utan um rakningu smita að öllu leyti síðastliðna daga og því er talið skynsamlegt að loka tímabundið til þess að fá betri yfirsýn á stöðuna.

Aftur verður fundað með almannavörnum, skóla- og frístundasviði, frístunda- og félagsmiðstöðvum og ÍR á mánudaginn og verður staðan þá endurmetin.

Bréf var sent foreldrum um þetta síðdegis og segir þar að svo virðist sem veiran sé á fleygiferð í hverfinu. Eru forráðamenn jafnframt hvattir til að fara í einkennasýnatöku með börn sín við minnstu einkenni.

mbl.is