Steypubílarnir fóru 1.900 ferðir

Áramótin 2021/22. Steypuvinnan gekk vel allt árið í fyrra og …
Áramótin 2021/22. Steypuvinnan gekk vel allt árið í fyrra og steypubílar streymdu í grunninn. Ljósmynd/NSLH

Uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut er í fullum gangi og að mestu á áætlun þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar, sem staðið hefur yfir í tvö ár.

Árið 2021 hefur stærsta verkefni NLSH ohf., sem stýrir Hringbrautarverkefninu, verið uppsteypa nýs meðferðarkjarna. Það mun einnig verða langstærsta verkefnið 2022. Áætluð verklok þessa risavaxna steypuverkefnis eru í nóvember 2023, að því fram kemur í Framkvæmdafréttum verkefnisins.

Meðferðarkjarninn, þ.e. hin eiginlega spítalabygging, verður stærsta mannvirkið á svæðinu, tæplega 70 þúsund fermetrar, sex hæðir auk tveggja kjallara.

Áramótin 2020/21. Hér er grunnur meðferðarkjarnans tilbúinn og hægt að …
Áramótin 2020/21. Hér er grunnur meðferðarkjarnans tilbúinn og hægt að hefja steypuvinnu. Ljósmynd/NSLH

Samtals hafa til þessa farið um 15.000 rúmmetrar af steypu í grunninn, þar af 12.500 rúmmetrar í húsið sjálft og 2.500 rúmmetrar í þrifalög. Alls eru þetta um 1.900 ferðir steypubíla. Búið er að steypa rúmlega 20% af því magni sem áætlað er að fari í meðferðarkjarnann.

Aðalverktaki uppsteypuverksins er Eykt hf. og helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna eru áframhaldandi vinna við mótauppslátt, járnabendingu, jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni, segir Eysteinn Einarsson staðarverkfræðingur í Framkvæmdafréttum.

Vinna við undirstöður og botnplötur í neðri kjallara er mjög langt komin og áætlað að henni ljúki um miðjan janúar. Samhliða er vinna við jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni í fullum gangi. Vinna við undirstöður í efri kjallara er hafin. Einnig er unnið við neðri kjallaraveggi sem og vinna við súlur. Utanhússfrágangur kjallaraveggja er að hefjast sem og fyllingar að þessum veggjum.

Útveggir nýs meðferðarkjarna verða byggðir upp að langmestu leyti sem svokallað „Unitized Wall System“, en það er heildstætt útveggjakerfi sem boðið er út til hönnunar, framleiðslu og uppsetningar. Um risavaxið samkeppnisútboð er að ræða og sér NLSH um verkefnastýringu og umsjón með útboðinu í samvinnu við innlenda og erlenda ráðgjafa ásamt þátttöku Ríkiskaupa. Áætlað er að niðurstöður útboðs liggi fyrir um mitt þetta ár.

Nýtt rannsóknahús, sem mun rísa vestan Læknagarðs HÍ, er ein af byggingum í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Það verður um 17.400 fermetrar að stærð. Uppgreftri á lausu jarðefni er lokið og sprengivinna hafin á klöpp. Verktaki er Háfell ehf. og er áætlað að jarðvinnu ljúki fyrri hluta ársins 2022. Jarðvinnu við bílakjallara, sem verður staðsettur undir Sóleyjartorgi austan megin við meðferðarkjarnann, er lokið og uppsteypa hefst á þessu ári. Bílakjallarinn verður rúmir sjö þúsund fermetrar að stærð og er hann hugsaður sem aðkoma fyrir þá sem eiga erindi á nýja spítalann, þ.e. sjúklinga og aðstandendur.

Á Sóleyjartorginu verður bein aðkoma að bráðamóttökunni og inn í spítalann. Bílakjallarinn verður á tveimur hæðum, hvor hæð um 3.500 fermetrar og verða þar um 180 bílastæði. Áætlað er að uppsteypu bílakjallara ljúki á árinu 2023, en hann verður tekinn í notkun samhliða spítalanum. Við Sóleyjartorgið er áformað að verði aðkoma borgarlínunnar í framtíðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »