Yfir 20 smit eftir skólaferð

Um þriðjungur nemenda sem fóru í skólaferð á Laugarvatn í …
Um þriðjungur nemenda sem fóru í skólaferð á Laugarvatn í síðustu viku smituðust af kórónaveirunni. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Yfir 20 nemendur í tíunda bekk í Laugalækjarskóla smituðust af kórónuveirunni eftir tvær skólaferðir á Laugarvatn í síðustu viku. Þetta staðfestir Jón Páll Haraldsson, skólastjóri Laugalækjarskóla, í samtali við mbl.is.

Nemendurnir tóku allir hraðpróf áður en haldið var í ferðalagið. „En þrátt fyrir hraðprófin þá slapp einhvern veginn smit inn í vikuna,“ segir Jón Páll.  

Að sögn Jóns Páls komu smitin í ljós deginum eftir að fyrri hópurinn kom heim en þá var seinni hópurinn hálfnaður með sína dvöl en 60 nemendur úr tíunda bekk fóru í ferðina og var þeim skipt í tvo 30 barna hópa. 

Smitin hafa þó ekki dreifst í aðra bekki skólans og eru bundin við nemendur þessara ferða.

Meirihluti tíunda bekkjar hefur því verið í einangrun eða sóttkví síðustu daga og skólastarf minna en áður en nemendurnir unnu sjálfstætt að heiman og gátu haft samband við kennara. Jón Páll bendir á að einhverjir krakkar hafi þó ekki farið í ferðina og því mætt í skólann og síðan hafi þeir nemendur sem ekki smituðust verið að tínast inn síðustu daga og í dag mættu svo í skólann þeir sem greindust fyrstir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert