Janssen-þegar bíði þriðju sprautunnar

Sprauta full af bóluefni Janssen.
Sprauta full af bóluefni Janssen. AFP

Það stóð alltaf til að miða rýmkaðar reglur um sóttkví þríbólusettra gegn Covid-19 við fjölda skammta, þ.e. þrjá, en ekki við einn skammt umfram grunnbólusetningu í samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis sem lá til grundvallar ákvörðuninni.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við erindi Umboðsmanns Alþingis en hann spurði hvort þeim sem fengu bólusetningu með efni frá Janssen væri mismunað með nýjum reglum um sóttkví.

7. janúar tóku gildi breytt­ar regl­ur um sótt­kví. Regl­urn­ar fela í sér, að nú eru þeir sem fengið hafa örvun­ar­skammt und­anþegn­ir hefðbund­inni sótt­kví en þurfa að und­ir­gang­ast ákveðnar regl­ur í fimm daga sem lýk­ur með PCR-prófi.

Einn skammtur af Janssen var talinn grunnbólusetning en þeir sem fengu það bóluefni þurfa þrátt fyrir það að bíða þriðju sprautunnar áður en þeir verða undanþegnir sóttkví, eins og reglur um þríbólusetta kveða á um.

Ákvæði í samræmi við jafnræðisreglur

Ákvörðun heilbrigðisráðherra byggði á því að hvað sem líður markaðsleyfi Janssen hafi rannsóknir og reynsla hér á landi sýnt að einn skammtur af því bóluefni veiti svipaða vörn gegn smiti og alvarlegum veikindum af völum Covid-19 og einn skammtur af öðrum bóluefnum.

Í svarbréfi ráðuneytisins kemur einnig fram að þeir sem hafi fengið Janssen bólusetningu og viðbótarskammt síðla síðasta sumars eða haust geti átt von á boði í þriðja skammt frá janúarlokum. 

Þeir sem hafi fengið Janssen, viðbótarskammt og Covid-smit standi jafnfætis þríbólusettum samkvæmt nýju reglugerðinni. 

Í ljósi þess leit ráðuneytið svo á að þeir sem hefðu fengið einn skammt af Janssen bóluefni og annan viðbótarskammt væru ekki í sambærilegri stöðu og þeir sem hefðu fengið þrjá skammta af bóluefni út frá vernd þeirra gegn smiti og veikindum af völdum veirunnar.

Telur ráðuneytið að málefnaleg sjónarmið í tengslum við varnir bóluefna við Covid-19 hafi legið að baki því að láta ákveða nýrrar reglugerðar um sóttkví gilda um þríbólusetta, óháð bóluefni, og að ákvæðið sé í samræmi við jafnræðisreglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert