Samningurinn ekki nógu góður

Fána Félags grunnskólakennara veifað í kröfugöngu.
Fána Félags grunnskólakennara veifað í kröfugöngu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Niðurstaðan þýðir auðvitað bara það sem hún segir, að mjög stór hópur kennara er sammála því að þessi samningur sé ekki nægilega góður og ekki á vetur setjandi, sem þýðir að hann var felldur,“ segir formaður Félags grunnskólakennara, Þorgerður Laufey Diðriksdóttir.

Ljóst varð í gær að grunnskólakennarar hefðu fellt nýjan kjarasamning í atkvæðagreiðslu. Tæplega þrír af hverjum fjórum félagsmönnum í félaginu kusu að fella samninginn, en kjörsókn var 69%.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara. Ljósmynd/Aðsend

„Tölurnar eru bara skýrar og kennarar eru samhentir í verkefnum sínum, þarna sést það enn og aftur, og það er ljóst að niðurstaðan er afgerandi,“ segir Þorgerður og bætir við að ekki sé hægt að greina úr tölunum hvað hafi orðið til þess að samningurinn var felldur.

Aldís Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir niðurstöðuna gríðarleg vonbrigði. „Þetta kemur okkur auðvitað mjög á óvart af því að viðræðurnar gengu það vel að eftir var tekið.“

Hún bætir við að vonast hafi verið til þess að samninganefnd kennara hefði það bakland að þessi samningur yrði samþykktur.

„Við töldum að í þessum samningi fælist allt það sem við gátum boðið og þarna er verið að bjóða það sem aðrir launþegar á Íslandi fengu í lífskjarasamningunum, þannig að við áttum okkur ekki á hvaða staða er þarna uppi og um hvað er verið að biðja,“ segir hún. „Við buðum allt sem við gátum; í þessum samningi fólst það sem við höfðum að bjóða.“

Aldís Hafsteinsdóttir, tjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, tjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Sigurður Bogi

Að sögn Aldísar hafi það legið fyrir allan tímann að samninganefnd sveitarfélaganna hefði ekkert umboð til þess að bjóða neitt annað en það sem aðrir Íslendingar hefðu fengið í lífskjarasamningunum.

„Ef kennarar telja sig þurfa að fá meira en allir aðrir hafa fengið, þá verður mjög snúið að ná lendingu um það.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert