Siðanefndin úrskurðar um sýknu DV og 24.is

Bæði DV og 24.is voru sýknuð í málunum tveimur.
Bæði DV og 24.is voru sýknuð í málunum tveimur. AFP

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur sýknað í tveimur málum sem voru til meðferðar hjá nefndinni eftir að kvartað var yfir umfjöllun vefmiðilsins 24.is annars vegar og DV hins vegar.

Í fyrra málinu var það útgefandinn Huginn Þór Grétarsson sem kærði 24.is vegna umfjöllunar um Facebook-hópinn Karlmennskuspjallið, en þar var meðal annars birt mynd af Hugin án þess að hann væri nefndur á nafn í umfjölluninni. Taldi Huginn myndbirtinguna vera tilefnislausa og særandi.

24.is birti síðar frétt með ýmsum ummælum Hugins og sagðist þá harma að ummæli Hugins hefðu ekki birst í upprunalegri umfjöllun.

Tekið er fram í úrskurði siðanefndarinnar að kæran hafi verið reifuð með óljósum hætti, en engu að síðar hafi verið ákveðið að taka hana fyrir. Telur nefndin ljóst að Huginn hafi tilheyrt hópnum og geti því ekki vikið sér undan því að vera tengdur honum í umfjöllun með myndbirtingu, jafnvel þótt ekki sér þar tilfærð ummæli hans.

Í hinu málinu kærði maður fyrir hönd sonar síns umfjöllun DV um aðkomu Jakobs Frímanns Magnússonar, sem nú er þingmaður Flokks fólksins, að svokölluðu liprunarbréfi vegna ferðalags sonarins. Þá er kvartað yfir því að blaðamaður DV hafi sent tilkynningu til barnaverndar. Vísaði nefndin frá síðara atriði málsins og sagði það ekki falla undir verksvið nefndarinnar.

Í úrskurði sínum segir siðanefndin að fréttin hafi snúist um aðkomu Jakobs að málinu, ekki kærendur sem hvergi voru nafngreindir, en þetta leiddi meðal annars til þess að utanríkisráðuneytið afturkallaði bréfið og baðst afsökunar á vinnubrögðum sínum. Tekið er fram að skoðun móðurinnar, sem tiltekin er í fréttinni, sé ekki brot á siðareglum og að málið sem slíkt, í ljósi þeirrar stjórnsýslumeðferðar sem það hlaut, hafi átt erindi til almennings og verið nægilega vandað til verka í framsetningu og úrvinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert