Þúsund börn í sýnatöku á morgun

Frá skimun vegna kórónuveirunnar við Suðurlandsbraut.
Frá skimun vegna kórónuveirunnar við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framundan er annasöm helgi í sýnatökum hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Um eitt þúsund börn eru væntanlega í sýnatöku á morgun. 

Þetta seg­ir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, í samtali við mbl.is.

Í vikunni hefur fjöldi smita komið upp í grunnskólum og hafa því fjölmörg börn verið send í sóttkví eða smitgát. Því er ljóst að þau börn sem voru útsett fyrir smiti í vikunni byrja að mæta í sýnatöku á morgun. Að sögn Ragnheiðar eru þau um eitt þúsund talsins.

„Það verður mikið fjör hjá okkur um helgina á Suðurlandsbrautinni,“ segir Ragnheiður.

Reynslumeiri taka sýni

Að sögn Ragnheiðar er Heilsugæslan búin að manna helgina vel en þrátt fyrir það mun verkið vera erfitt þar sem það tekur fimm sinnum lengri tíma að taka sýni úr börnum en fullorðnum. Þá munu einungis reynslumeiri starfsmenn taka sýni úr börnunum.

„Eingöngu þeir með mestu reynsluna fá að taka sýni úr börnum. Það er ekki endalaust til af því fólki en við erum alltaf að þjálfa og þjálfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert