„Við bræður skoruðum 19“

Bikarmeistarar Þróttar árið 1983.
Bikarmeistarar Þróttar árið 1983.

Páll Ólafsson og Sigurður Valur Sveinsson, fyrrverandi landsliðsmenn í handbolta, sprungu út með liði Þróttar 1979 til 1982 og héldu út í atvinnumennsku í kjölfarið. „Árangur Þróttar á þessum tíma kom okkur Palla á kortið, við fórum að hugsa og æfa eins og menn,“ segir Siggi, sem var Reykjavíkurmeistari með Þrótti 1976, þá 17 ára.

Þróttarar fögnuðu hápunkti félagsins í handboltanum fyrir um 40 árum, þegar þeir urðu bikarmeistarar í fyrsta og eina sinn í meistaraflokki karla 1981, og komust síðan í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa tæplega ári síðar. Auk þess urðu þeir í öðru sæti á Íslandsmótinu 1980-81, eftir að hafa komið upp úr 2. deild árið áður, og Siggi varð markakóngur deildarinnar með 135 mörk í 14 leikjum, sem var met, skoraði m.a. 16 mörk á móti Val í sigurleik, 28:25. „Við æfðum í Vogaskólanum með Óla H.,“ minnir hann á. „Liðið leystist upp eftir Evrópukeppnina og við tók frekar brött brekka niður á við, en óþarfi er að rifja það upp,“ segir Einar Sveinsson, bróðir hans.

Ólafur H. Jónsson fór fyrir mulningsvél Vals á sínum tíma og eftir nokkur ár í atvinnumennsku tók hann við þjálfun Þróttar í 2. deild 1979 auk þess sem hann spilaði með liðinu. Og árangurinn lét ekki á sér standa. „Þessi ár voru stórkostleg,“ rifjar Einar upp. „Við eltum Víkingana, sem höfðu lengi verið óstöðvandi, í deildinni og það var frábært að vinna þá 21:20 í úrslitaleik bikarkeppninnar í kjaftfullri Höllinni, þar sem frábærir stuðningsmenn okkar hvöttu okkur til dáða. Þá er ekki leiðinlegt að minnast þess að aðeins Valur hafði náð betri árangri í Evrópukeppni en við, lék til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða í mars 1980.“

Herinn stöðvaði Þrótt

Þróttarar slógu út norsku bikarmeistarana Kristiansand, hollenska liðið Sittardia Sittard og ítalska liðið Tacca Pallamano áður en kom að fjórðungsúrslitunum í apríl 1982, þar sem mótherjarnir voru Dukla Prag frá þáverandi Tékkóslóvakíu. „Við stóðum okkur vonum framar á móti tékkneska hernum, töpuðum með fjórum mörkum heima, 21:17, en komumst svo í 7:0 úti áður en við töpuðum 23:19,“ rifjar Einar upp. „Aðstæður hentuðu okkur ekki vel, leikurinn byrjaði klukkan hálftíu að morgni og höllin var full af hermönnum.“

Tónninn var gefinn í 2. deildinni og bræðurnir voru í sviðsljósinu eftir 27:23-sigur á Þór fyrir norðan laugardaginn 22. mars 1980. Einar segir að eftir leik hafi verið haldið beint í veislu í Ármúlanum í Reykjavík, þar sem Óli H. hafi verið að opna nýja Hummelbúð. Kjartan L. Pálsson íþróttafréttamaður hafi verið á meðal gesta og spurt sig um úrslit á Akureyri. „Ég sagði honum það. Þá spurði hann hverjir hefðu skorað. „Við bræður skoruðum 19 mörk og aðrir færri,“ svaraði ég og gekk síðan í burtu. Ég lét ósagt að Siggi bróðir skoraði 18 mörk og ég eitt, en síðan hefur varla liðið sú vika að ég hafi ekki verið minntur á svarið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »