Segir Ólaf Ragnar hafa skemmt stjórnarskrána

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, hafi opinberað galla í stjórnarskránni þegar hann „skemmdi hana“ með því að láta á þá reyna.

Þetta segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

Ólafur hafi fyrst látið reyna á gallana með því að hafna því að skrifa undir lög og aftur þegar hann hafnaði þingrofsbeiðni þáverandi forsætisráðherra.

Þar á hann við synjun á staðfestingu fjölmiðlalaga árið 2004 og þingrofsbeiðni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar árið 2016.

Ólafur Ragnar Grímsson í Hörpu.
Ólafur Ragnar Grímsson í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví bendir í greininni á galla í stjórnarskránni varðandi víðtækt vald forseta Íslands en einnig að hann skuli framselja ráðherrum vald sitt.

Ólafur hafi gengið gegn þessu með því að hafna því að skrifa undir lögin og hafna þingrofsbeiðninni.

„Þegar Ólafur Ragnar ákvað hvernig skyldi túlka þessi orð skemmdi hann gölluðu stjórnarskrána. Allt í einu framseldi forseti ekki vald sitt til ráðherra, sem þýðir að forseti getur samkvæmt bókstaf stjórnarskrárinnar fellt niður saksókn, rofið þing og veitt undanþágur frá reglum. Ólafur Ragnar bjó til nýjan konung Íslands – og gat það af því að stjórnarskráin okkar er gölluð,“ skrifar hann.

mbl.is