„Þolum ekki marga svona daga“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson

Mikið álag var á sýnatökum á Suðurlandsbraut í dag. Um fimm þúsund PCR-sýni voru tekin og voru þar af 928 sýni tekin af börnum undir átta ára aldri. Í vik­unni hef­ur fjöldi smita komið upp í grunn­skól­um og hafa því fjöl­mörg börn verið send í sótt­kví eða smit­gát.

„Öll mörk eru náttúrulega alltaf að færast hærra og hærra, sama eins og Víðir var að tala um einhverntímann í fréttunum að viðmiðin eru orðin öll svo skrýtin hjá manni að maður er alltaf að reyna að gera betur og betur, segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Maður reynir að taka hvern dag fyrir sig og kýla á þetta en við þolum ekkert marga svona daga.“

Að sögn Ragnheiðar tekur um fimm sinnum lengri tíma að …
Að sögn Ragnheiðar tekur um fimm sinnum lengri tíma að taka sýni úr yngstu börnunum og mörg börn sem hafa áður komið séu orðin hvekkt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búast við svipuðum fjölda á morgun

Ragnheiður segir að fjöldi starfsmanna hafi verið kallaður út í dag til að anna álaginu, því hafi gengið vel og engar raðir myndast. Hún segir einungis það starfsfólk sem sé orðið mjög vant sýnatökum fái að taka sýni úr börnum undir átta ára aldri.

Að hennar sögn tekur um fimm sinnum lengri tíma að taka sýni úr yngstu börnunum og mörg börn sem hafa áður komið séu orðin hvekkt. 

„þetta er orðið íþyngjandi fyrir börnin að koma trekk í trekk og þau eru orðin verulega hvekkt mörg.“

Búist er við að svipaður fjöldi mæti á morgun í sýnatöku og þá sé einnig búist við því að næsta vika verði annasöm þar sem að mikill fjöldi smita greindist í síðustu viku.

„Okkur fannst ágætt þegar það voru 2.000-3.000 sýni tekin á dag, það fannst okkur stórir dagar. Núna er þetta orðið 4.000-5.000 það finnst okkur rosa stórir dagar og svo veit ég ekki hvar þetta endar.

Þetta brenglar öll viðmið hjá manni afþví að allar tölur hækka allsstaðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina