Þýðir ekkert að passa sig að móðga engan

„Ég vil að fólk annað hvort hati [bókina] eða að …
„Ég vil að fólk annað hvort hati [bókina] eða að hún sé sú skemmtilegasta sem fólk hefur lesið á árinu,“ segir Bragi Páll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þvílík steypa“, „drepfyndin“, „ógeðsleg“, „stórkostleg“, „þvæla“, „stórskemmtileg“, „ömurleg“. Svona skiptast lesendur Braga Páls Sigurðarsonar á skoðunum á Storytel yfir nýjustu bók hans – Arnaldur Indriðason deyr – sem má, miðað við dóma almúgans, segja að hafi skipt bókaþjóðinni í tvær fylkingar: lesendur sem þyrstir í meira og lesendur sem var ríflega ofboðið.

Bragi, sem viðurkennir fúslega að bókin sé óþægileg, fagnar umtalinu. „Mér finnst frábært að fólk sé að tala um bókmenntir heilt yfir, þó það sé að rífast og sé ósátt. Það eina sem ég vil ekki er að láta fólki leiðast og að allir séu bara að éta seríós og pasta,“ segir Bragi.

„Ég vil að fólk annað hvort hati [bókina] eða að hún sé sú skemmtilegasta sem fólk hefur lesið á árinu. Til þess að það gerist þarftu að skrúfa allt upp í ellefu og þá þýðir ekkert að stíga varlega til jarðar og passa sig að móðga engan. Það þarf bara að fara alla leið og vera með svolítil læti. Ef fólk er yfir höfuð að lesa bækur ætti það að lesa bækur sem það getur myndað sér skoðun á í kjölfarið.“

Vonar að fáir haldi með aðalpersónunni

Eins og áður segir þá tókst Braga heldur betur að vekja umtal og hefur óvenju hátt hlutfall þeirra sem hafa gefið bókinni einkunn einnig skrifað umsögn um hana. Lesendur hafa því augljóslega þörf fyrir að tjá sig eftir að hafa lesið um viðbjóðslegar pyntingar og fylgt eftir narsisískum aðalpersónum í rúmar sjö klukkustundir eða á ríflega 260 blaðsíðum.

„Sumir hafa sagt að hún sé of ýkt, þetta sé ógeðslegt, og ég held líka að það sé mjög lítill kúltúr fyrir grótesku hérna á Íslandi, nánast ekki neinn. Við erum orðin mjög vön því að bækur séu á ákveðinn hátt og aðalpersónur séu á ákveðinn hátt. Þó það sé alveg fólk hér sem brýtur upp normið þá er ekki mjög mikið um óþægilegar bækur.“

Blaðamaður – sem fékk nokkrum sinnum gæsahúð við hlustunina, kúgaðist að minnsta kosti í tvígang og þurfti í eitt skipti að leggja frá sér morgunmatinn – á ekki í neinum vandræðum með að taka undir það að bókin sé óþægileg. Sumir þeirra sem skrifað hafa umsagnir hafa neyðst til að hætta í miðju kafi og verður það að teljast skiljanlegt með tilliti til allra þeirra líkamsvessa sem fá að flæða óhindrað um síður bókarinnar. En það er ekki bara viðfangsefnið, morðin, ælan og saurinn sem gera bókina óþægilega. Það er ýmislegt annað sem hjálpar Braga að æra suma lesendur gjörsamlega. Til að mynda það að aðalpersóna bókarinnar, Uggi Óðinsson, er afar óviðkunnanleg og vonar Bragi jafnvel sjálfur að fáir lesendur haldi með Ugga.

„Það er kannski ekki mjög algengt að rithöfundar bjóði lesendum upp á það að fylgja eftir svona viðbjóðslega leiðinlegum manneskjum í svona langan tíma; yfirleitt eru aðalpersónur týpur sem maður heldur með eða jafnvel einhvers konar andhetjur sem eiga erfitt líf en maður samt skilur þeirra ákvarðanir og vill að þeim gangi vel. Það er vonandi ekki í tilfelli Ugga þannig að flestir lesendur haldi með honum. Svo er lögreglumaðurinn í málinu ekki einu sinni þannig týpa að maður sé með honum í liði og vilji að hann leysi málið vegna þess að hann er svo mikill narsisisti að hann er ekki heldur persóna sem er hægt að fíla,“ segir Bragi Páll.

„Ég er á engan hátt að reyna að niðurlægja eitthvað nafngreint fólk“

En var það markmiðið, að gera Ugga svona fráhrindandi?

„Uggi tók eiginlega bara völdin í frásögninni vegna þess að hann er mjög viljasterk persóna og er mjög ákveðinn í því hvert hann vill fara með hlutina. Það eina sem ég lagði upp með var að skrifa bók sem hæfist á því að Arnaldur Indriðason fyndist látinn. Það var eini þráðurinn sem ég var með þegar ég byrjaði að skrifa. Það varð mjög fljótlega ljóst að Uggi yrði alveg ofboðslega krefjandi og óþægilegur náungi að öllu leyti,“ segir Bragi.

Annað sem eflaust má gera ráð fyrir að fari fyrir brjóstið á sumum lesendum er sú staðreynd að þar eru persónur úr íslenskum veruleika drepnar, ekki bara á hrottalegan hátt heldur á þann allra viðbjóðslegasta máta sem hægt er að ímynda sér.

„Ég er á engan hátt að reyna að niðurlægja eitthvað nafngreint fólk þarna,“ segir Bragi um það.

„Það er skrumskæling og bjánaskapur að nota þessa einstaklinga en að sama skapi fannst mér þetta heiðarlegra en það sem hefur verið tískan á Íslandi; að ýja mjög sterklega að því að skáldsagnapersónur séu byggðar á raunverulegum manneskjum, gefa þeim áþekk nöfn, sömu störf, láta það líta eins út, gera það sama, og vísa í atburði sem þorri almennings þekkir og þannig vera að skrifa um raunverulegar persónur án þess að nefna þær á nafn.“

Bragi segist ekki vilja „bjóða almenningi upp á“ slík vinnubrögð. „Stígðu bara heiðarlega fram og segðu um hvern í fjandanum er að ræða.“

Aðspurður segir Bragi að engin af persónum bókarinnar sem einnig gengur um götur hins raunverulega Íslands hafi haft samband við hann vegna bókarinnar. Þó hafi hann farið í viðtal til Egils Helgasonar, stjórnanda bókmenntaþáttarins Kiljunnar sem kemur fyrir í bókinni, og Egill virtist ekki hafa móðgast.

„Honum fannst þetta bara sprenghlægilegt. Enda skildi hann held ég alveg hvað ég var að fara með henni og sá alveg að það varð engum meint af.“

Guðmundi Andra fannst morðið á Arnaldi síðasta sort

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og ritstjóri hjá Forlaginu, var þó lítt hrifinn af því að einn dáðasti rithöfundur þjóðarinnar væri tekinn af lífi í bókinni og tjáði sig um það á Facebook í byrjun desember. 

„Þetta með Arnald finnst mér alveg síðasta sort,“ sagði Guðmundur Andri í athugasemd undir færslu Stefáns Pálssonar sagnfræðings þar sem Arnaldur Indriðason deyr var rædd. 

„Mér finnst bara þetta að leika sér að hugmynd um að drepa raunverulegan lifandi mann af holdi og blóði bara eitthvað svo hrikalegt. Mér ofbýður það. Allt öðru máli gegnir um gengna menn.“

Annað hvort fullt hús stiga eða eitt

Á hljóðbókaveitunni StoryTel og bókasíðunni Goodreads getur hinn almenni lesandi sagt sína skoðun á þeim verkum sem hann hefur krufið. Á þessum vettvöngum hefur Arnaldur Indriðason deyr hlotið feiknin öll af dómum upp á bæði eina stjörnu og fimm. 

„Ég vissi alveg að bókin yrði ekki allra. En að þetta yrði svona svart hvítt sá ég ekki fyrir. Á tímabili var einkunnagjafa-kúrvan á bæði StoryTel og Goodreads þannig að hún fékk oftast fimm og eina stjörnu en sjaldnast tvær, þrjár eða fjórar. Það voru flestir sem annað hvort elskuðu hana eða algjörlega hötuðu hana. Yfirleitt er meðalkúrfan á flestum svona einkunnagjöfum þannig að bækur fá mest af þremur stjörnum,“ segir Bragi Páll.

Skrifuð á sérstöku tímabili í lífi Braga

Hvað sem lesendum finnst svo sem um bókina þá segir Bragi Páll að hann hafi haft gaman af því að skrifa hana.

„Mér fannst þetta splatter ógeð ótrúlega skemmtilegt. Hún er skrifuð á mjög sérstöku tímabili í mínu lífi. Það voru mikil veikindi í kringum mig, ég var mjög svefnlaus og það var mikil streita. Mögulega smitaði það að einhverju leyti skriftirnar, kannski ef ég skrifa næstu bók við þær aðstæður að það er ekki heimsfaraldur í gangi og börnin mín eru við fullkomna heilsu og ég er geðveikt vel sofinn þá verður það bara einhver mjög falleg, lýrísk, rómantísk saga. Kannski einhver sagnfræðileg skáldsaga svo að ég fái tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna svo að ég geti kannski farið að lifa á þessu.“

Gefum lesendum orðið svona rétt í lokin. „Mjög leiðinleg bók. Ótrúlegt að senda svona verk frá sér,“ skrifar Sigríður Margrét Sigurðardóttir á StoryTel og gefur Braga eina forláta stjörnu. Gunnar Hjálmarsson, betur þekktur sem Doktor Gunni, er staddur á akkúrat hinum endanum. Í hans dómi á GoodReads segir: „Algjör splatterisirkus, sprenghlægilegur og meinfísinn. Svaka fínt!“ Sigrún Vilhjálms á StoryTel segist „ekki hrifin“. Þá varð henni „óglatt í restina“.  Valgerður Halldórsdóttir á sama miðli hlakkar aftur á móti til þess að lesa fleiri bækur eftir sama höfund. Sölvi Sigurðsson á StoryTel segir bókina „ógeð“ en leikarinn Villi Neto lýsir sinni skoðun á Goodreads og vill meina að hér sé um að ræða frábæra bók sem er „gjörsamlega rugluð“.

mbl.is