Akureyringur vann 18 milljónir

Akureyringurinn datt í lukkupottinn.
Akureyringurinn datt í lukkupottinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var glúrinn tippari frá Akureyri sem fékk 13 rétta á enska getraunaseðlinum í gær og vann tæpar 18 milljónir króna.

Tipparinn keypti miðann í getraunaappinu og er þetta hæsti vinningur sem unnist hefur á enska getraunaseðilinn sem keyptur er í appinu, að því er kemur fram í tilkynningu.

Tipparinn tvítryggði sjö leiki, þrítryggði einn leik og var með eitt merki á fimm leikjum. Alls kostaði getraunaseðillinn 5.760 krónur.

Tipparinn er frá Akureyri og er stuðningsmaður KA.

mbl.is