Erum á leið út af sporinu

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir
Ragnar Freyr Ingvarsson læknir

Ólíklegt er að nýlegar sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda muni skila tilætluðum árangri, enda er faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna í mennta- og háskóla. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum og fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala.

Hann segir að víða erlendis sé verið að endurskoða nálgun í ljósi breyttra aðstæðna sökum þess að fleiri smitist en fáir lendi á gjörgæslu. Tíðni innlagna vegna Ómíkron-afbrigðisins sé lægri á Íslandi en í Danmörku og margfalt lægri en vegna Delta-afbrigðisins.

„Víða í kringum okkur er verið að skilgreina viðbrögð upp á nýtt í ljósi nýrra forsendna, m.a. á hinum Norðurlöndunum. Verið er að endurhugsa skimanir, sóttkví, viðbrögð almennings og á heilbrigðisstofnunum. Tímabært er að við gerum slíkt hið sama,“ skrifar Ragnar Freyr á Facebook.

„Við þurfum að þrauka í gegnum harðar samfélagsaðgerðir enn á ný. Að þessu sinni erum við á leið út af sporinu. Mikilvægt er að við komum okkur á rétta braut fyrr en seinna. Loksins sést til sólar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina